23.4.2019 10:50

Umskiptingar gegn framsókn

Sigurður Ingi hlýtur að átta sig á að lögfræðilegar álitsgerðir trufla hvorki Sigmund Davíð né Gunnar Braga í þessari aðför þeirra að Framsóknarflokknum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, ritaði grein á vefsíðuna Kjarnann mánudaginn 22. apríl. Þar ræddi hann stöðu stjórnmála um þessar mundir og vék meðal annars að þriðja orkupakkanum með þessum orðum:

„Hefur ríkisstjórnin reynt að koma til móts við þá sem harðast hafa gagnrýnt pakkann með þingsályktunartillögu sem og fleiru sem á að taka af allan vafa um að orkuauðlindir Íslands verði undir yfirráðum Íslendinga og engra annarra. Þrátt fyrir álit fjölmargra lögspekinga þá hefur ekki náðst að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að nóg sé að gert með þeim fyrirvörum sem kynntir hafa verið. [...]

Í meira en öld hefur Framsókn oft verið í því hlutverki að miðla málum. Ég tel mjög mikilvægt að í vinnu þingsins við orkupakka þrjú vinni allir þingmenn samkvæmt samvisku sinni að því að tryggja hagsmuni Íslands og gleymi ekki að hlusta eftir þeim röddum sem hljóma utan þinghússins. Þeim tíma sem fer í að skapa sátt og einingu er ætíð vel varið.“

Formaður Framsóknarflokksins finnur fyrir því að forveri hans á formannsstóli Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) notar þetta mál til að ná vopnum sínum gagnvart fyrrverandi samherjum. SDG gefur ekkert fyrir álit „fjölmargra lögspekinga“. Hann gefur ekki heldur neitt fyrir þann þátt í þessu máli sem gerðist á hans vakt sem forsætisráðherra.

7591d02bfcfbdf807eba8ad77d965f8fd303_9-1024x658Þá afgreiddu þingnefndir málið sem eðlilegan hluta EES-samstarfsins og valið var brot af orkupakkanum til sérstakrar flýtimeðferðar á alþingi af því að það þótti falla að umræðum sem þá fóru fram um kerfisáætlanir vegna lagningar á raflínum, meðal annars yfir Sprengisand. Enginn talaði þá á þann veg á þingi að einhver hætta fælist í þessum pakka fyrir Ísland.

Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, var utanríkisráðherra í umboði Framsóknarflokksins á þessum tíma. Gunnar Bragi sendi utanríkismálanefnd alþingis minnisblað dags. 7. nóvember 2014. Nú gera þeir Gunnar Bragi og SDG mikið úr hættunni af ESB-fagstofnuninni ACER. Í minnisblaðinu til alþingis þegar þeir voru í forsvari fyrir ríkisstjórn sagði:

„Niðurstaða: Á meðan íslenska raforkukerfið er einangrað eiga bindandi ákvarðanir ACER ekki við hér landi þar sem þær eiga eingöngu við um álitamál sem koma upp við flutning raforku yfir landamæri. Ef ákvörðun ACER myndi í framtíðinni snúa að Íslandi myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið [í EES-samstarfinu] þannig að ACER tæki aldrei eitt og sér ákvörðun gagnvart Íslandi.“

Gunnar Bragi Sveinsson situr nú sem óbreyttur nefndarmaður í utanríkismálanefnd alþingis. Skyldi hann segja meðnefndarmönnum sínum nú að ekkert hafi verið að marka skjalið sem nefndinni var sent í umboði hans 7. nóvember 2014?

Það er eins líklegt og hitt að hann leggist gegn tillögum um að treysta stöðu Íslands enn frekar en nú er utan þess sem kerfis sem fellur undir ESB og þar með ACER.

Sigurður Ingi hlýtur að átta sig á að lögfræðilegar álitsgerðir trufla hvorki Sigmund Davíð né Gunnar Braga í þessari aðför þeirra að flokknum sem veitti þeim umboðið til að ýta þriðja orkupakkanum úr vör. Átti formaður Framsóknarflokksins sig ekki á heiftinni getur hann til dæmis hlustað á upptökur sem eru í vörslu hjá siðanefnd alþingismanna.