13.10.2018 11:30

Umrótið við Fossvoginn

Þeir sem muna þennan hluta Vatnsmýrarinnar fyrir og eftir HR átta sig á gjörbreytingunni sem orðið hefur á svæðinu við tilkomu skólans.

Í Morgunblaðinu 5. apríl 2005 birtist frétt undir fyrirsögninni: Rúm 70% Reykvíkinga vilja ekki HR [Háskólann í Reykjavík] í Öskjuhlíð. Þar er sagt frá niðurstöðum Gallup-könnunar í mars 2005, þar sem spurt var: „Reykjavíkurborg hefur boðið Háskólanum í Reykjavík framtíðaraðsetur á svæðinu milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Hvort viltu að skólinn fái að byggja á þessu landsvæði eða að svæðið verði þróað áfram sem útivistar- og afþreyingarsvæði fyrir borgarbúa?“ Tæp 30% vildu sjá HR á þessum stað en rúm 70% vildu frekar hafa útvistar- og afþreyingarsvæði á svæðinu – fleiri karlar vildu skólann þarna en konur.

1089705Svona sjá hönnuðir fyrir sér brú fyrir „vistvæna umferð“ yfir Fossvoginn. Við ströndina til hægri er bragginn dýri og þar fyrir norðan byggingar Háskólans í Reykjavík. Flugskýlið á myndinni er aðsetur Landhelgisgæslu Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Flugbrautarendinn er þar sem gula „girðingin“ er á myndinni, það er milli brúarendand og braggans. Ætla má að strætisvagnar aki vestan við flugbrautina inn í miðborg Reykjavíkur – eða hvað? Myndin birtist á mbl.is.

Þetta má rifja upp núna þegar rætt er um braggann dýra í Nauthólsvíkinni sem Reykjavíkurborg hefur gert upp fyrirt tæpan hálfan milljarð í þágu HR. Þessi kostnaður er áfallinn þrátt fyrir að ekki sé lokið við endurgerð húsnæðis sem á að hýsa starfsemi frumkvöðla.

Þeir sem muna þennan hluta Vatnsmýrarinnar fyrir og eftir HR átta sig á gjörbreytingunni sem orðið hefur á svæðinu við tilkomu skólans. Mikið flæmi lands hefur verið lagt undir bílastæði og nú hefjast framkvæmdir við stúdentagarða norðan þess.

Allar spár um mikla og þunga umferð bíla úr þessum botnlanga hafa ræst. Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti svo í vikunni að auglýsa skyldi deiliskipulag brúar yfir Fossvog. Gert er ráð fyrir um 270 metra langri brú yfir voginn frá norðurenda Bakkabrautar á Kársnesi að flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar vestan Nauthólsvíkur. Brúin verður fyrir umferð gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.

Kröfu um að lagður verði vegur á strönd Fossvogsins frá HR að Kringlumýrarbraut er ekki langt að bíða. Hof ásatrúarmanna er fyrsti vísir að byggð í suðurhlíð Öskjuhlíðar. Hofinu fylgir síðan krafa um bílastæði. Nú þegar leggja nemendur eða starfsmenn HR bílum í skógargötu í Öskjuhlíðinni.

IMG_7084Þessi mynd er tekin fyrir fáeinum dögum af bílum frá HR í skógargötu í Öskjuhlíð. Ökumenn kjósa frekar að leggja þarna en á stæðum við skólann annaðhvort vegna skorts á stæðum eða til að losna við langar bílaraðir við komu eða brottför úr skólanum.

Það er HR ekki til álitsauka að tengjast umræðunni um braggann dýra og þeirri óráðsíu eða stjórnleysi sem einkennir það mál allt. Þá er það HR ekki heldur til framdráttar að hafa boðið starfsmanni sínum tvo afarkosti: að semja um starfslok eða þola tafarlausan brottrekstur vegna ummæla sem hann lét falla í lokuðum hópi á samfélagsmiðli. Er þetta ekki tilboð sem ekki er unnt að hafna? Var slíkt tilboð einnig gert af hálfu HR vegna braggans dýra?