21.2.2018 11:25

Umferðarþungi í áttina að Nauthólsvík

Fleiri en Pawel hljóta að huga að því hvað gera skuli til að greiða fyrir umferð í áttina að Nauthólsvík.

Þegar ákveðið var að reisa Háskólann í Reykvík (HR) í öngstræti við Nauthólsvík blasti við að krafist yrði akleiðar frá Kringlumýrarbraut meðfram Fossvognum, fyrir neðan kirkjugarðinn, að skólanum. Umferðarþunginn yrði svo mikill að þetta yrði óumflýjanlegt.

Nú hefur hugmynd slíka akleið verið kynnt.

Pawel Bartoszek, fyrrv. þingmaður Viðreisnar, skrifar grein í Fréttablaðið mánudaginn 19. febrúar um það sem hann segir ótrúlega mikla „sóun í samgöngukerfinu sem einfalt væri að losna við með tiltölulega ódýrum aðgerðum“.

Hann telur „sjálfsagt og auðvelt að hleypa fólksbílunum á strætóreinarnar“. Hann segir: „Kjörið væri að opna ... [göngu- og hjóla]stíga fyrir almenningsumferð, þ.e.a.s. umferð einkabíla. Ein hugmynd er þar borðleggjandi. [...]

Hví ekki að ... opna [göngu]brúna [yfir Kringlumýrarbraut við botn Fossvogarins] fyrir umferð léttari fólksbíla á morgnana? Þannig gætu nemendur HR tekið brúna og keyrt svo eftir hjóla- og göngustígnum sem lagður hefur verið Fossvogsmegin Öskjuhlíðar fyrir milljónir króna en stendur oft auður. Þeir gætu keyrt alla leið að skólanum og jafnvel lagt á sjálfri Ylströndinni, sem oftast er tóm.“

Pawel skrifar þessa grein til að skemmta lesendum sínum. Hann veit sjálfur að ekki er unnt að nota mannvirkin sem hann nefnir í þessum tilgangi. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara. Fleiri en Pawel hljóta að huga að því hvað gera skuli til að greiða fyrir umferð í áttina að Nauthólsvík. Þungi hennar eykst með tilkomu húsanna við Valsvöllinn auk þess sem reisa á stúdentabyggð við vesturhlið Öskjuhlíðar.

Bílaröð frá Háskólanum í Reykjavík á leið til umferðaræða.

Hér birtast myndir sem ég tók í byrjun september 2017 í nágrenni við HR. Þar sést röð bíla sem eru á leið frá HR í átt að Hafnarfjarðarvegi eða Hringbraut. Að baki þeim má sjá flugskýli Landhelgisgæslu Íslands sem er í nágrenni suðurenda flugbrautarinnar við Nauthólsvík. Auðveldar sú vitneskja ef til vill einhverjum að átta sig á hve löng bílaröðin er.

Frá bílastæði HR.

Á hinni bílamyndinni sem tekin er í jaðri bílastæða HR sést að stæðin eru fullnýtt þótt mikil séu að flatarmáli. Spurning er hvort borgaryfirvöld geri yfirleitt ráð fyrir bílastæðum við stúdentagarðana sem rísa þarna í nágrenninu.

Ásatrúarmenn reisa hof sitt í jaðri Öskjuhlíðar.

Mannvirkjagerð teygir sig nú þegar austur fyrir HR í jaðri Öskjuhlíðar, í áttina að Kringlumýrarbraut, eins og myndin af framkvæmdum við hof Ásatrúarmanna sýnir. Hvort þeir fá bílastæði við sjóinn fyrir austan Ylströndina og Nauthól kemur í ljós.