10.12.2019 10:18

Tvenn bókmenntaverðlaun Nóbels í dag

Víðar í bókinni Flug nefnir Olga Tokarczuk Ísland og við lesturinn vaknaði spurning um hvort hún hefði komið hingað eða kynnst landi og þjóð af frásögn einhvers af mörg þúsund Pólverjum sem hér hafa dvaldist.

Tvenn bókmenntaverðlaun Nóbels eru afhent í Stokkhólmi í dag (10. desember). Sænska akademían gat ekki afhent verðlaun árið 2018 vegna vandræða innan dyra sem rakin voru til ásakana um kynferðislegt ofbeldi sem tengdist akademíunni.

Nú verða því afhent verðlaunin fyrir árið 2018 og hlýtur pólska skáldkonan Olga Tokarczuk þau. Ég hef lesið eina bóka hennar sem heitir Flights á ensku – Flug. Fyrir hana hlaut hún The Man Booker International Prize 2018. Bókin er um ferðalög á 21. öldinni eins og segir á bókarkápu og líffræðilegar rannsóknir á mannslíkamanum. Með ferðalögunum tengir Tokarczuk staði og atburði eða vísindalegar rannsóknir. Stundum segir hún sögu í löngum köflum en inn á milli eru stuttar frásagnir.

Ein frásagan ber fyrirsögnina: Geirvörtur jarðar. Þar segir frá ungri ljóshærðri stúlku, varla eldri en 19 ára, sem lagði stund á norrænar bókmenntir, og vini hennar sem einsettu sér að fara á puttanum frá Reykjavík til Ísafjarðar. Á afdráttarlausan hátt var þeim ráðið frá því með tvennum rökum: í fyrsta lagi væri ekki mikil umferð á Íslandi og sérstaklega ekki norður, þau gætu þess vegna strandað einhvers staðar á leiðinni, í öðru lagi gæti hitastigið fallið öllum að óvörum. Unga fólkið hafði þessi ráð að engu. Þau urðu síðan strandaglópar í snjókomu. Eftir raunina var þeim sagt að þau hefðu ekki þurft að óttast neitt á meðan þau lágu úti í mosanum því að jörðin væri lifandi og menn þyrftu ekki annað en fá sér af mjólk jarðarinnar.

Þessi stutta frásögn og heiti hennar minnir á eitt frægasta íslenska málverkið, Fjallamjólk, Jóhannesar S. Kjarvals.

30ba2fd4-367e-4b35-9f8c-8e9eab39aa21-688x451Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval

Víðar í bókinni Flug nefnir Tokarczuk Ísland og við lesturinn vaknaði spurning um hvort hún hefði komið hingað eða kynnst landi og þjóð af frásögn einhvers af mörg þúsund Pólverjum sem hér hafa dvaldist.

Samhliða því sem Olga Tokarczuk fær Nóbelsverðlaunin fyrir 2018 fær Peter Handke frá Austurríki verðlaunin fyrir 2019. Ákvörðunin um að verðlauna hann leiddi til mótmæla á Balkanskaga og víðar því að á sínum tíma studdi Slobodan heitinn Milosevic foringja Serba þegar tekist var á um yfirráð innan Júgóslavíu fyrrverandi. Þá flutti hann minningarræðu við jarðarför Milosevic árið 2006.

Þegar Handke var tilnefndur fyrir málsnilli sína og sem einum áhrifamesta rithöfundi Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. Vegna tilnefningar hans sagði einn í Nóbelsnefndinni sig úr henni og sendiherrar Kosóvó, Albaníu og Tyrklands ætla ekki að þiggja boð um þátttöku í hátíðarhöldunum í dag í mótmælaskyni.

Í nýlegu viðtali við þýska vikublaðið Die Zeit sagði Handke að ekki væri unnt að álasa sér fyrir eitt orð sem hann hefði skrifað um Júgóslavíu. „Þetta eru bókmenntir,“ sagði hann og endurtók sömu orð einnig á blaðamannafundi í Stokkhólmi á dögunum.

Hann sagðist „auðvitað“ hafa verið við jarðarför Milosevic, hún hafi einnig verið jarðarför Júgóslavíu. – Hvort menn hafi gleymt því að ríkið Júgóslavía hafi verið stofnað gegn Þrija ríki Hiters?