7.11.2017 10:34

Tveggja aldarafmæla minnst

Ein öld er liðin í dag frá byltingunni í Rússlandi og einnig frá því að Pétur Thorsteinsson fæddist.

Þess er minnst í dag, 7. nóvember 2017, að 100 ár eru liðin frá byltingunni í Rússlandi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor sem best hefur kynnt sér sögu kommúnismans hér og erlendis ritar yfirlitsgrein í Morgunblaðið af þessu tilefni. Greinin hefst á þessum orðum:

„Þennan dag fyrir hundrað árum rændu Lenín og liðsmenn hans völdum af kjörinni lýðræðisstjórn. Í hönd fór sigurför kommúnista um heim allan, en samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2009, týndu 100 milljónir manna lífi af þeirra völdum: Flestir voru sveltir í hel, aðallega í Úkraínu 1932-1933 og Kína 1958-1961, aðrir skotnir, hengdir eða barðir til bana. Sumum var drekkt og lífið murkað úr öðrum í pyndingaklefum eða vinnubúðum. Þótt þessi róttæka hreyfing, sem hóf göngu sína fyrir hundrað árum, yrði smám saman að andlausri stofnun, snerust stjórnmáladeilur um allan heim, líka á Íslandi, löngum um kommúnismann, allt fram til þess að Berlínarmúrinn hrundi 1989.“

Sérkennilegt er til þess að hugsa hve margir sem töldust til menntamanna í lýðræðisríkjum aðhylltust kommúnisma og voru til þess búnir að taka upp hanskann fyrir hann.

Í Morgunblaðinu í dag minnist Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra, þess að 7. nóvember 2017 er einnig aldarafmæli Péturs Thorsteinssonar sendiherra. Pétur hóf farsælt starf sitt í utanríkisþjónustunni í síðari heimsstyrjöldinni þegar hann fór með Pétri Benediktssyni sendiherra og þeir opnuðu sendiráð Íslands í Moskvu. Í grein Ólafs segir meðal annars:

„Margt óvænt bar fyrir augu þessa fyrsta embættismanns íslenskra stjórnvalda sem dvaldist að staðaldri í Moskvu. Hann hafði verið nokkuð vinstrisinnaður og, eins og hann sjálfur átti eftir að komast að orði, hafði „trúað skrifunum um Sovétríkin, ekki síst ritum Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar“. Sú trú hafði þó eitthvað dvínað og við hin beinu kynni varð hann fljótt afhuga sósíalísku þjóðskipulagi.“

 

Í ár eru 40 ár frá því að íslenskur forsætisráðherra fór í fyrstu (og einu?) opinberu heimsóknina til Rússlands. Það var Geir Hallgrímsson og var Pétur Thorsteinsson í fylgdarliði hans. Ferðin er minnisstæð meðal annars vegna þess  hve Pétur var vel að sér um allt í Sovétríkjunum og hve skemmtilegur ferðafélagi hann var. Flogið var suður til Úkraínu, Georgíu og Armeníu í vél sovéskra stjórnvalda en sérlegur fulltrúi þeirra var A. Ishkov sjávarútvegsráðherra. Er ógleymanlegt þegar Pétur gladdi Iskhov í flugvélinni með því að syngja fyrir hann rússnesk þjóðlög.

Ég setti orðin „og einu?“ innan sviga vegna þess að í mars 1987 fór Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra í heimsókn til Sovétríkjanna. Hann þáði þá boð Mikhaíls Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, sem vildi endurgjalda heimsókn sína á leiðtogafundinn með Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í Höfða í október 1986.

Árið 1987 fór ég til Moskvu sem blaðamaður Morgunblaðsins og fylgdist með fundum Steingríms auk þess sem ég fékk tækifæri til að heimsækja andófshjónin Andrei Sakharov og Jelenu Bonner á heimili þeirra. Það varð að gerast með nokkurri leynd fyrir tilstuðlan fréttaritara Reuters sem ég hafði einmitt kynnst í tengslum við fundinn í Höfða.

Heimsókn Steingríms Hermannssonar til Rússlands var með allt öðru sniði en heimsókn Geirs Hallgrímssonar. Á máli diplómata ætti líklega að kalla hana „vinnuheimsókn“.

Tveir íslenskir forsætisráðherrar heimsóttu Sovétríkin, var ég í fylgdarliði annars en fylgdist með ferðum hins. Hvorug ferðanna breytti áliti mínu á hörmulegum stjórnarháttum kommúnista, kynntist ég þó ekki öðru en því sem stjórnvöld töldu við hæfi að sýna gestum í því skyni að heilla þá.