20.1.2021 10:11

Trump yfirgefur Washington

Árásin á Capitol hvílir eins og skuggi yfir bandarísku þjóðinni. Donald Trump fer með skömm margra gamalla fylgismanna sinna frá Washington vegna hennar.

Donald Trump lætur af embætti forseta Bandaríkjanna í dag (20. janúar) og við tekur 46. forseti þeirra, Joe Biden. Trump flýgur frá Washington til Flórída og verður ekki á tröppum Capitol, bandaríska þinghússins, þegar Biden sver embættiseið sinn.

Fyrir fjórum árum hófst stríð Trumps við fjölmiðla, strax á fyrsta degi hans í embætti, þegar hann sakaði fjölmiðlamenn um að segja færri hafa verið við embættistöku sína en hann sjálfur taldi vera þar. Í dag verður ekki vandasamt að telja þá sem sýna sig úti við í Washington. Þar ber mest á þjóðvarðliðum og lögreglumönnum við öryggisgæslu en almenningur er hvattur til að halda sig heima vegna COVID-19-farsóttarinnar.

Trump-jacksonDonald Trump áður en hann kvaddi forsetaskrifstofuna í Hvíta húsinu.

Donald Trump skilur eftir sig pólitískt sár við brottför sína. Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, minntist í ræðu í deildinni þriðjudaginn 19. janúar á banvænu árásina á Capitol 6. janúar og sagði:

„Skríllinn var mataður af lygum. Forsetinn og annað áhrifamikið fólk eggjaði hann og hann reyndi að vekja ótta og beita ofbeldi til að þeir sem mynda fyrstu grein alríkisstjórnarinnar gætu ekki afgreitt mál sem skrílnum var ekki að skapi.“

Þarna vísar McConnell til þess að Trump vildi ekki að Mike Pence varaforseti stæði að vottun þingsins á niðurstöðu kjörmannanna á sigri Bidens. McConnell hét því í ræðu sinni að embættistaka Bidens yrði „örugg og vel heppnuð“.

Mitch McConnell leiddi meirihluta repúblikana í öldungadeildinni í stjórnartíð Trumps og lét ekki bilbug á sér finna. Í dag hverfur hann úr forystuhlutverki í deildinni og víkur fyrir leiðtoga demókrata þar, Chuck Schumer. Staðan þar er 50-50 mili flokkanna tveggja en Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, á úrslitaatkvæðið og þar með er meirihlutinn í höndum demókrata eins og í fulltrúadeild þingsins.

Schumer hefur boðað að í öldungadeildinni verði tafarlaust tekið til við að ræða ákæruna á hendur Trump vegna aðildar hans að Capitol-árásinni 6. janúar. Schumer segir að öldungadeildarþingmenn verði að sýna í verki að forseta Bandaríkjanna verði ekki liðið refsilaust að „fremja alvarlegasta brot nokkurs forseta“. Finni deildin Trump sekan um stjórnarskrárbrot getur hann aldrei gegnt opinberu embætti að nýju.

Árásin á Capitol hvílir eins og skuggi yfir bandarísku þjóðinni. Donald Trump fer með skömm margra gamalla fylgismanna sinna frá Washington vegna hennar. Það var holur hljómur í lofræðu hans um sjálfan sig í Hvíta húsinu fyrir brottförina þaðan. Þótt Trump beri sig vel í sjálfsdýrkun sinni er nöturlegur blær yfir brottför hans.

Við brottförina frá Washington hverfur Trump ekki úr fjölmiðlum. Yfirlýsingar hans um eigin miðla og eigin stjórnmálaflokk eru ef til vill meira en innantóm orð. Hann kann ekki að taka ósigri og vill laga lýðræðislegar leikreglur að eigin hagsmunum. Hefjist hann að nýju til pólitískra metorða yrði það lýðræðislegt áfall. Allt kann þetta að ýta undir áhuga öldungadeildarþingmanna á að dæma hann í pólitíska útlegð.