18.1.2026 10:44

Trump virðir engin mörk

Trump verða aðeins settar skorður á heimavelli. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur ekki enn komist að niðurstöðu um hvort forsetanum sé heimilt að beita tollavopninu að eigin geðþótta.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á síðu sinni Truth Social laugardaginn 17. janúar að hann ætlaði að leggja allt að 25% toll á Evrópuríki sem ættu herafla á Grænlandi til þátttöku í varnaráætlanagerð á vegum NATO.

Þessari tilkynningu er vægast sagt illa tekið í Evrópu og hún er réttilega talin til marks um óskiljanlega örvæntingu sem ógni öllu samstarfi á vettvangi NATO. Það hittir í mark þegar sagt er að hún sé síðbúin jólagjöf frá Trump til Pútins.

Mótmæli frá Evrópu verða líklega aðeins til að Trump espist enn í flumbrugangi sínum. Honum verða aðeins settar skorður á heimavelli. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur ekki enn komist að niðurstöðu um hvort forsetanum sé heimilt að beita tollavopninu að eigin geðþótta.

Þá hljóta stjórnmálamenn og álitsgjafar í flokki forsetans að sjá að hann fer út fyrir öll mörk. Yrði það sígilt efni í sögubókum ef offor Trumps í garð bestu bandamanna sinna, Dana vegna Grænlands, þar sem Bandaríkjaher getur í raun athafnað sig að vild, leiddi af sér takmörkun á valdi hans. Er vonandi að svo verði.

Screenshot-2026-01-18-at-10.41.05Laugardaginn 17. janúar var efnt til mótmæla í Danmörku og Nuuk gegn þrýstingi Trumps. Á þessari mynd má sjá helstu forystumenn grænlenskra stjórnmála í fremstu röð mótmælenda í Nuuk.

Í liðinni viku voru 11 bandarískir þingmenn, níu demókratar og tveir repúblikanar, í Kaupmannahöfn til að lýsa stuðningi við málstað Dana og Grænlendinga gegn Trump. Í hópnum var repúblikaninn Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður frá Alaska. Hún tók upp hanskann fyrir Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og taldi hann en ekki upplýsingafulltrúa Hvíta hússins segja rétt frá fundi Lars Løkke, Vivian Motzfeldt, J.D. Vance og Marcos Rubio í Washington miðvikudaginn 14. janúar.

Lars Løkke og Motzfelt sögðu strax eftir fundinn að stofnaður hefði verið vinnuhópur til að ræða áhyggjur Bandaríkjamanna af öryggi á norðurslóðum „með virðingu fyrir rauðum línum konungsríkisins Danmerkur“. Fimmtudaginn 15. janúar hélt Karoline Leavitt, upplýsingafulltrúi Donalds Trump, því fram að á fundinum hefði þvert á móti verið samþykkt að vinnuhópurinn snerist um „tæknilegar viðræður um yfirtöku á Grænlandi“.

Um þetta sagði Lisa Murkowski við Berlingske:

„Ég ræddi reyndar við varaforsetann strax eftir fundinn með utanríkisráðherrunum tveimur og hann sagði mér að þetta hefði verið mjög uppbyggilegt samtal sem lagði grunn að frekari viðræðum.“

Trump vegur ekki aðeins að traustum bandamönnum með tollum heldur gerir hann varaforseta sinn og utanríkisráðherra marklausa.