6.1.2024 10:55

Trump, Svandís og réttvísin

Líkindin milli afstöðu Svandísar og Trumps til stjórnarskrár og landslaga eru sláandi. Þau telja sig bæði fórnarlömb úreltra laga og sitja sem fastast.

Hæstiréttur Bandaríkjanna segist ætla að taka fyrir sögulegt mál til að skera úr um það hvort Donald Trump geti boðið sig fram sem forseti Bandaríkjanna. Málið snýst um úrskurð Coloradoríkis um að Trump sé ekki kjörgengur í ríkinu þar sem hafi verið með uppsteyt gegn stjórnskipun Bandaríkjanna 6. janúar 2021 þrátt fyrir að hafa svarið þess eið að virða bandarísku stjórnarskrána.

Skýrt var frá því föstudaginn 5. janúar að málið yrði flutt fyrir hæstarétti í 8. febrúar og niðurstaða dómaranna myndi gilda um öll Bandaríkin. Forkosningar repúblikana verða í Colarado og mörgum öðrum ríkjum 5. mars og þess er vænst að fyrir þann tíma hafi hæstaréttardómararnir níu komist að niðurstöðu, sex þeirra eru taldir íhaldssamir, af þeim eru þrír skipaðir af Trump.

ZKXNMFDNXBJMHOIMMXSVA3VRVMHæstiréttur Bandaríkjanna.

Niðurstaða dómaranna ræðst af því hvort stjórnarskrárákvæði sem samþykkt var vegna bandarísku borgarastyrjaldarinnar á 19. öld leiði til þess að Trump sé ókjörgengur í forsetakosningunum 5. nóvember 2024. Sumir dómaranna hafa heitið því að dæma eftir bókstaf laganna, aðrir aðhyllast „framsækna túlkun“ sem jafna má við lagasetningarvald dómara.

Þrátt fyrir mörg málaferli heldur Trump sínu striki í kosningabaráttunni. Hann telur sig og fylgismenn sína fórnarlömb, hann eigi ekki annars kost en berjast áfram í nafni lýðræðis og frelsis skoðana sinna og stuðningsmanna sinna. Fréttir herma að eftir því sem sakargiftum á hendur honum fjölgar aukist fjárstreymi frá almenningi í kosningasjóð hans. Hann sé í raun óstöðvandi og honum detti ekki í hug að draga sig í hlé þótt allir frambjóðendur í hans sporum hefðu gert það.

Trump sagði frá því á kosningafundi í Sioux Center í Iowaríki föstudaginn 5. janúar að hæstiréttur hefði samþykkt áfrýjun sína á Coloradodóminum. Hann sagðist vona að dómararnir myndu túlka lögin af sanngirni: „Það eina sem ég óska eftir er sanngirni; ég lagði mjög hart að mér við að fá þrjá mjög, mjög góða einstaklinga inn,“ sagði hann þegar hann vék að dómurunum sem hann tilnefndi. Hann bætti við: „Og ég vona bara að þeir verði sanngjarnir vegna þess að þeir í hinu liðinu eru fláráðir, eins og þið vitið.“

Umboðsmaður alþingis gefur álit en dæmir ekki í málum, aðeins dómarar hafa úrskurðarvald um hvort lögbrot hafi verið framið.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir býr við þá niðurstöðu umboðsmanns alþingis, sem á að tryggja góða stjórnsýsluhætti, að hún hafi sett reglugerð til að stöðva veiðar á hvölum án þess að hafa til þess lagaheimild. Verra stjórnsýslubrot getur ráðherra ekki framið.

Ráðherrann ber fyrir sig dýravelferð og segist ekki hafa átt annarra kosta völ. Hún segir: „Það er sú tímaskekkja [að hvalveiðilögin séu frá 1949] sem leiðir til þess að umboðsmaður ályktar að ekki sé fyrir hendi nægilega skýr lagastoð fyrir reglugerð þeirri sem ég setti síðastliðið sumar.“

Líkindin milli afstöðu Svandísar og Trumps til stjórnarskrár og landslaga eru sláandi. Þau telja sig bæði fórnarlömb úreltra laga og sitja sem fastast, þau eigi ekki annarra kosta völ, hún vegna velferðar dýra og hann vegna velferðar kjósenda sinna.