7.7.2017 10:09

Trump spyr hvort „vestrænar þjóðir vilji halda lífi“

Að eðlilegt og tímabært sé að spyrja á þann hátt sem Trump gerði lýsir vel breytingunum sem orðið hafa á fáeinum árum.

Eftir ræðu sem Donald Trump flutti þegar hann var í höfuðstöðvum NATO í Brussel í lok maí var vakin athygli á að hann hefði ekki minnst þar á 5. gr. sáttmála NATO um að árás á eitt bandalagsríki væri árás á þau öll. Furðukenningar flugu af stað um að þetta sýndi stefnubreytingu af hálfu Bandaríkjastjórnar. Líklega sýndi spuninn vegna ræðunnar helst með hvaða tortryggnis-gleraugum allt er lesið sem frá Trump kemur. 

Trump flutti mikla ræðu í Varsjá fimmtudaginn 6. júlí. Þar sagði hann meðal annars:

„Við verðum að minnast þess að varnir okkar eru ekki aðeins reistar á fjárhagsskuldbindingum þær eru reistar á viljanum sem að baki býr. [...] Grundvallarspurning líðandi stundar er hvort vestrænar þjóðir vilji halda lífi. Höfum því þá trú á gildum okkar að við viljum verja þau hvað sem það kostar? Berum við næga virðingu fyrir borgurum okkar til að vernda landamæri okkar? Búum við yfir þrá og hugrekki til að varðveita siðmenningu okkar andspænis þeim sem vilja grafa undan henni og eyðileggja?“

Áður hafði hann sagt í ræðunni:

„Við þá sem kunna að gagnrýna harða afstöðu okkar vil ég segja að við Bandaríkjamenn höfum ekki aðeins í orði heldur einnig á borði sýnt að við stöndum fast að sameiginlegum varnarskuldbindingum í 5. grein.“

Fullyrða má að ár og dagur sé liðinn frá því að Bandaríkjaforseti kvað svo fast að orði þegar hann ræddi nauðsyn samstöðu vestrænna þjóða um það sem hefur skapað þeim styrk og forystu. Að eðlilegt og tímabært sé að spyrja á þann hátt sem Trump gerði lýsir vel breytingunum sem orðið hafa á fáeinum árum.

Útdrátt úr ræðunni má finna hér.

Það vakti athygli að á blaðamannafundi í Varsjá 6. júlí fór Trump gagnrýnisorðum um Barack Obama, forvera sinn, þegar hann sagðist ætla að bregðast við ögrunum N-Kóreumanna – menn skyldu átta sig á að segðist hann draga rauða línu fælist í því að virða bæri hana. Obama hefði dregið rauða línu vegna efnavopna í Sýrlandi án þess að nokkuð hefði verið að marka hana – það hefði komið í sinn hlut, sagði Trump, að taka á Sýrlandsforseta eftir að her hans beitti efnavopnum.

Donald Trump og Valdimir Pútín hittast í fyrsta sinn á einkafundi í tengslum við leiðtogafund G20-ríkjanna í Hamborg föstudaginn 7. júlí. Verður náið fylgst með hverju skrefi og hverju orði í tengslum við þann fund. 

G20-ríkjasamstarfinu var komið á fót til að árétta samstöðu helstu iðnríkja heims. Það stendur ekki á neinum formlegum grunni og miðað við ágreining milli þátttökuríkjanna og mótmælaaðgerðir í Hamborg mætti draga þá ályktun að G20-markmiðið hafi snúist í andhverfu sína.

Trump er meira undir smásjá bandarískra fjölmiðla en nokkur forveri hans og er þá mikið sagt. Meira að segja hvernig hann tekur í höndina á viðmælanda sínum er tilefni langra útlistana. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hreykir sér af því að hnúarnir hafi hvítnað þegar þeir Trump heilsuðust.