20.1.2025 11:56

Trump snýr til baka

Sumir rekja vinsamlegra viðmót til þess að Trump hafi valdið menningarbyltingu í Bandaríkjunum. Hvað sem því líður má lýsa endurkjöri hans í forsetaembættið sem einstæðu pólitísku meistarastykki.

Við þurfum ekki að fara langt til að finna ríkisstjórn sem kvíðir því sem Donald Trump kann að segja um klukkan 17.00 að ísl. tíma í dag (20. janúar) í fyrstu stefnumarkandi ræðu sinni sem 47. forseti Bandaríkjanna. Danir bíða með öndina í hálsinum hvort hann víki orðum að Grænlandi.

Fyrir jólin 2024 þegar Trump endurtók áhuga sinn á Grænlandi, sem fyrst varð opinber árið 2019, blés Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Dana á ummæli hans og sagði fyrir 12 dögum ástæðulaust að nota orðið „krísu“ í tilefni af þeim.

Sunnudaginn 19. janúar tók Lars Løkke þátt í sjónvarpsumræðum sem danska TV 2 og grænlenska KNR skipulögðu saman um framtíð Grænlands og voru þátttakendur bæði í Nuuk og Kaupmannahöfn. Þar sagði danski utanríkisráðherrann:

„Ef forsetinn endurtekur þau sjónarmið og þær fullyrðingar sem við höfum séð á samfélagsmiðlum stöndum við frammi fyrir alvarlegustu krísu í utanríkismálum sem við höfum kynnst í Danmörku sé litið margar, margar kynslóðir til baka.“

Verði það niðurstaða þessa alvarlega máls að Grænlendingar, Bandaríkjamenn og Danir taki höndum saman við að uppfæra varnir Grænlands, sem eru í molum núna, ná þeir ekki raunverulegum árangri nema með samvinnu við íslensk stjórnvöld. Þau ættu að létta róðurinn fyrir Dani án þess að spilla góðu tvíhliða varnarsamstarfi okkar við Bandaríkjastjórn.

Service-pnp-ppbd-00600-00607vÞetta er opinber embættismynd Donalds Trump á síðara kjörtímabili hans.

Þegar Donald Trump tók við forsetaembættinu í fyrra skiptið árið 2017 hófst sérkennileg rimma um hve margir hefðu staðið fyrir framan þinghúsið í Washington DC. Myndir sýndu færra fólk en árið 2009 þegar Barack Obama var settur í embættið. Bent var á að tæplega milljón manns hefðu hyllt Obama en um þriðjungur þess fjölda hefði fagnað Trump. Fyrir þetta þrætti Trump og gaf blaðafulltrúa sínum Sean Spicer fyrirmæli um að segja að aldrei hefðu fleiri komið til að verða vitni að embættistöku Bandaríkjaforseta.

Nú er það ekki áhyggjuefni neins hve margir koma saman utan dyra því athöfnin fer fram inni í anddyri þinghússins vegna kulda í Washington. Þetta gerðist síðast árið 1985 þegar Ronald Reagan varð forseti í síðara skipti.

ABC-fréttastofan segir að dagurinn í dag sé kaldasti embættistökudagur forseta í 40 ár. Margir fréttaskýrendur efast þó um að fimm gráðu frost ráði því að athöfnin sé flutt inn í þinghúsið. Þar sé einnig litið til þess að Trump sé orðinn 78 ára.

David Axelrod var ráðgjafi Obama og er nú álitsgjafi CNN. Hann segir á X:

„Árið 1961 var John F. Kennedy settur í embætti á tröppum þinghússins í 14 gráðu frosti. Kuldinn var næstum eins mikill 2009 hjá Obama. Til að öllu sé til skila haldið þá ER Trump meira en þremur áratugum eldri en JFK og Obama voru. Eða óttaðist hann bara að fáir myndu koma?“

Almennt er viðmótið í garð Trumps vinsamlegra nú en árið 2017 þegar hann kemur í Hvíta húsið. Sumir rekja það til þess að Trump hafi valdið menningarbyltingu í Bandaríkjunum. Hvað sem því líður má lýsa endurkjöri hans í forsetaembættið sem einstæðu pólitísku meistarastykki.