12.6.2018 9:53

Trump sigri hrósandi - skýrendur á öðru máli

Fréttaskýrendur sögðu að forsetinn hefði verið upphafinn af sjálfsánægju sem stangaðist á við óljósa niðurstöðu fundarins.

Á 65 mínútna blaðamannafundi í Singapúr eftir fundinn með Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, í morgun (12. júní) sagðist Donald Trump Bandaríkjaforseti ekki hafa sofið í 25 klukkutíma af því að hann hefði lagt nótt við dag til að ná árangri í viðræðunum. Það var erfitt að fá heildarmynd af því sem gerst hafði með því að hlusta á forsetann. Hann varði hvað eftir annað ákvörðun sína um að hitta einræðisherrann. Nefndi hann þar fyrst og síðast kjarnorkuvopn N-Kóreu. Hann sagðist hafa lofað Kim að hætta heræfingum með S-Kóreumönnum til að spara útgjöld vegna flugs sprengjuvéla í sex og hálfan tíma frá Guam-eyju til S-Kóreu.

4f613016-6de3-11e8-92d3-6c13e5c92914Kim Jong-un og Donald Trump heilsast í Singapúr 12. júní 2018.

Trump sagði að á fyrstu sekúndu fundar síns með Kim hefði hann áttað sig á að þeir gætu rætt saman, hann hefði áður sagt að hann þyrfti fimm sekúndur. Þá sagði hann einnig að S-Kóreumenn hefðu átt í vandræðum með að selja miða á vetrarólympíuleikana þar til Kim hefði kynnt að N-Kóreumenn kæmu þangað þá hefði sala miða á leikana stóraukist og þeim verið borgið.

Trump fór lofsamlegum orðum um sjálfan sig sem samningamann hann gæti gert ótrúlega samninga. Enginn texti um niðurstöður fundarins hafði verið birtur fyrir blaðamannafundinn. Fréttaskýrendur sögðu að forsetinn hefði verið upphafinn af sjálfsánægju sem stangaðist á við óljósa niðurstöðu fundarins.

Eftir að Trump flaug frá Kanada til Singapúr eftir G7-leiðtogafundinn kveikti hann á sjónvarpi í forsetaflugvélinni og sá Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á blaðamannafundi. Í Singapúr sagði Trump að hann hefði reiðst svo yfir orðum Trudeaus að hann hefði látið afturkalla undirskrift sína af lokaályktun fundarins. Líklegt er að Trump verði einnig reiður þegar hann kveikir á sjónvarpinu í forsetavélinni á leiðinni frá Singapúr og heyrir til dæmis hvernig talað er um hann á CNN.

Á blaðamannafundinum vék Trump að ljósmyndinni frá G7-fundinum sem þýska kanslaraembættið sendi frá sér og birtist hér með þessum texta. Trump sagði að túlka mætti myndina á þann veg að Merkel væri að lesa honum pistilinn og sjálfur væri hann reiður. Þetta væri ekki rétt túlkun, þarna hefðu þeir spjallað saman á meðan beðið var eftir að lokið yrði við að ganga frá lokaályktun fundarins.

Angela-merkel-pov-g7-summit-twitter_625x300_1528630861806Angela Merkel og Donald Trump á G7-fundinum í Kanada.

Trump er mjög við hugann hvernig aðrir tala um hann. Líti hann á fundinn með Kim sem hátind á ferli sínum verður forvitnilegt að sjá hvernig hann heldur á framhaldinu þegar einræðisherrann grípur til sinna ráða.