Trump sigar skríl á þingmenn
Öll þessi atburðarás sýnir enn og aftur að Donald Trump hugsar aðeins um sjálfan sig.
Ráðist var á þinghús Bandaríkjanna í Washington miðvikudaginn 6. janúar til að hindra lokastaðfestingu beggja deilda þingsins á niðurstöðum forsetakosninganna 3. nóvember 2020. Donald Trump tapaði fyrir Joe Biden. Trump hefur síðan spunnið lygavef um kosningasvindl. Málsvarar hans hafa árangurslaust reynt að fá úrslitunum hnekkt fyrir dómi.
Mike Pence, varaforseti gegndi formlegu hlutverki við lokastaðfestingu þingsins. Trump krafðist þess að hann bryti stjórnarskrána. Pence neitaði og snerist opinberlega gegn forsetanum.
Skríll Trumps ryðst inn í þinghúsið 6. janúar 2021.
Í þann mund sem þingmennirnir komu saman flutti Trump forseti ræðu á útifundi undir kjörorðinu Save America March þar sem hann hét því að samþykkja aldrei að hafa tapað. „Við förum að þinghúsinu, reynið og blásið þeim í brjóst heiður og hugrekki sem þeir þurfa til að endurheimta land okkar.“
Afleiðing hvatningarorða forsetans blasti við allri heimsbyggðinni þegar skríllinn réðst inn í þinghúsið og þingsalina. Öfgafullir æsingamenn settust í stóla þingforseta, fulltrúadeildarþingmenn földu sig á bak við stóla og borð, þeir fengu gasgrímur, varaforsetanum var í skyndi fylgt af vopnuðum vörðum á öruggan stað og menn með skammbyssur á lofti tóku sér stöðu við dyr inn í þingsal. Kona var skotin til bana og þrír aðrir mótmælendur féllu í valinn.
Þingmenn gerðu hlé á störfum sínum en tóku að nýju til starfa eftir að röð og regla ríkti að nýju í þinghúsinu. Klukkan um 04.00 (09.00 ísl. tími) aðfaranótt fimmtudags 7. janúar las Mike Pence skjölin sem staðfestu kjör Joes Bidens sem forseta og Kamölu Harris sem varaforseta. Þau tækju við embætti 20. janúar 2021.
Skömmu síðar birti starfsmaður Hvíta hússins tilkynningu frá Trump um að hann viðurkenndi ekki ósigur en hins vegar færi innsetning nýja forsetans fram „friðsamlega“. Að fjölmiðlafulltrúi flutti þessi boð frá forsetanum má rekja til þess að ritstjórar Twitter og Facebook hafa lokað aðgangi Trumps vegna öfga hans.
Myndirnar sem birtast nú af því sem gerðist við og inni í þinghúsinu bera vott um ótrúlega mikið aðgæslu- og varnarleysi. Þeir sem hafa lagt leið sína inn í þessa háborg bandarísks lýðræðis og kynnst öryggisgæslunni gagnvart friðsömum gestum undrast að varnirnar séu í raun eins aumar og myndirnar sýna.
Öll þessi atburðarás sýnir enn og aftur að Donald Trump hugsar aðeins um sjálfan sig. Þegar Mike Pence hafi sent forsetanum bréf og lýst stjórnskipulegum skyldum sínum, sér bæri að virða þær en ekki fyrirmæli Trumps sagði forsetinn á Twitter: „Mike Pence hafði ekki hugrekki til að gera það sem hann hefði átt að gera til að verja land okkar og stjórnarskrá.“
Nú berast fréttir um að jafnvel ráðherrar í stjórn Trumps ræði hvernig eigi að losna strax við hann úr embætti. Ömurlegri endalok pólitísks ferils í lýðræðisríki en Trumps eru óhugsandi – að reynast ófær um að viðurkenna ósigur og siga skríl á þá sem sinna lýðræðislegum, stjórnarskrárbundnum skyldum.