4.3.2025 10:10

Trump og Pútin gegn Zelenskíj

Þessi harkalega ákvörðun styður hernað Rússa og er tekin með það fyrir augum að neyða Volodymyr Zelenskíj til að láta að vilja Trumps og Pútins eða til afsagnar sem forseti Úkraínu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað mánudaginn 3. mars að gera tafarlaust hlé á öllum hernaðarlegum stuðningi við Úkraínu. Þessi harkalega ákvörðun styður hernað Rússa og er tekin með það fyrir augum að neyða Volodymyr Zelenskíj til að láta að vilja Trumps og Pútins eða til afsagnar sem forseti Úkraínu.

Trump hefur ráðist á Zelenskíj undanfarnar vikur og kallað hann „einræðisherra“ sem sitji án endurkjörs að loknu kjörtímabili sínu. Þá hefur Trump viljað neyða hann til að rita undir samkomulag um bandarískan aðgang að fágætum jarðefnum í Úkraínu.

Ágreiningur þeirra varð öllum heiminum augljós í beinni útsendingu frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu föstudaginn 28. febrúar. Þar „leyfði“ Zelenskíj sér að andmæla JD Vance, varaforseta Trumps, sem stökk upp á nef sér. Honum er sama hvort Úkraína sé frjálst og fullvalda ríki og einnig um hvaða áhrif sigur Rússa hefði á frið og frelsi í Evrópu. Trump talar, þótt ótrúlegt sé, af vinsemd um Vladimir Pútin Rússlandsforseta en illa um Zelenskíj.

Öðrum þræði ræðst afstaða Trumps af hatri í garð forvera síns Joes Biden og tengsla hans við Úkraínu. Trump segir að fyrir mistök Bidens hafi Pútin ráðist inn í Úkraínu, hefði hann sjálfur verið á forsetavaktinni hefði þetta aldrei gerst. Biden talaði ekki við Rússa en sjálfur ætti hann „mjög góð samtöl“ við Pútin.

Árið 2019 hringdi Trump í Zelenskíj og bað hann að rannsaka hvað væri hæft grunsemdum um spillingartengsl Hunters, sonar Bidens, við fjármálamenn í Úkraínu. Zelenskíj fór ekki að óskum Trumps, og það er geymt en ekki gleymt.

Screenshot-2025-03-04-at-09.02.41Volodymyr Zelenskíj og Donald Trump í Hvíta húsinu 28. febrúar 2025.

Mánudaginn 3. mars sagði Zelenskíj að friðarsamningur væri „mjög, mjög fjarlægur“. Trump brást við með þeim orðum að Úkraínuforseti yrði „ekki mjög lengi á sínum stað“ ef hann lyki ekki stríðinu með hraði.

Nokkrum klukkustundum síðar kom eins og þruma úr heiðskíru lofti að Bandaríkjastjórn hefði gert hlé á hernaðarlegum stuðningi sínum við Úkraínu en hann nemur 43% af heildarstuðningnum. Þá vill Trump að fjármálaráðuneytið semji lista yfir refsiráðstafanir sem aflétta megi af Rússum.

Allt verður þetta til þess að rússneski herinn lætur reyna á varnir Úkraínumanna af meiri þunga en áður. Láti Zelenskíj ekki undan þrýstingi Trumps og Pútins og skrifi undir það sem þeir krefjast munu þeir beita sér gegn honum á heimavelli. Hægri hönd Trumps, margmilljarðamæringurinn Elon Musk, talar nú um að „hlutlaust land“ verði að bjóða Zelenskíj „hæli“ ef hann leggur á flótta.

Úkraínuher getur að sögn sérfræðinga barist áfram fram á sumar án bandarískrar aðstoðar. Eftir það yrði skortur á skotfærum og búnaði til að beita fullkomnustu vopnunum. Spurningar hafa vaknað um aðgang Úkraínumanna að upplýsingum frá háþróuðum njósna- og miðunarbúnaði Bandaríkjahers.

Hergagnaframleiðsla eykst jafnt og þétt í Evrópu og nú verða teknar ákvarðanir um að efla hana enn frekar. Þá hefur Friedrich Merz, væntanlegur Þýskalandskanslari, boðað meira þýskt framlag til Úkraínuhers. Ástralir hafa lýst aðild sinni að hópi ríkja sem eru viljug til að standa við bakið á Úkraínumönnum. Margir ríkisoddvitar standa að baki Zelenskíj í stríðinu um setu hans í embætti.