9.11.2020 10:08

Trump með um 71 milljón atkvæði – III.

O‘Neill segir að það hafi farið hrollur um ráðandi öfl í kringum Biden þegar þeir rýndu í upplýsingar um kjósendahóp Trumps.

Hér verður haldið áfram þar sem frá var horfið við að endursegja það sem Brendan O'Neill ritstjóri vefsíðunnar spiked birti þar um bandarísku kosningaúrslitin 6. nóvember þegar fyrir lá að Donald Trump fengi um 70 milljónir atkvæða.

O‘Neill segir að það hafi farið hrollur um ráðandi öfl í kringum Biden þegar þeir rýndu í upplýsingar um kjósendahóp Trumps. Þar er stuðst við útgöngukannanir á kjörstað sem sýna að fleiri blökkumenn og kjósendur af spænskum uppruna studdu Trump árið 2020 en árið 2016. Nú er talið að 18% blökkumanna hafi kosið Trump en 5% þeirra kusu repúblikanann John McCain árið 2008 og 11% repúblikanann Mitt Romney árið 2012. Að stuðningur þessa hóps kjósenda aukist svona við mann sem er útmálaður sem talsmaður „hvítra yfirburða“ er mjög merkilegt að mati O‘Neills.

25fd-trumpblacks-superJumboStuðningur blökkumanna við Trump jókst í kosningunum 2020.

AP VoteCast segir að 35% kjósenda af spænskum uppruna hafi kosið Trump. Sama megi segja um 59% kjósenda á Hawaii sem rekja uppruna sinn til eyjanna og 52% frumbyggja í Alaska. Segir O‘Neill augljóst af þessu að þetta fólk hafi ekki fengið boðskapinn sem birtist í The New York Times (NYT), Saturday Night Life og frá stjórn Demókrataflokksins um að Trump sé rasisti og hati alla sem ekki eru hvítir.

O‘Neill segir að ekki komi á óvart að þeir sem hann kallar ný-rasista og skoðanamótandi elítuna ráðist nú harkalega á minnihlutahópa sem kusu Trump. Að blökkumenn og fólk af spænskum ættum kjósi Trump er að mati dálkahöfunar NYT til marks um áhrifa- og jafnvel kúgunarmátt „hvíta feðraveldisins“.

Þá kemur fram hjá O‘Neill að það sé sláandi munur á menntunarstigi þeirra sem kusu Biden annars vegar og Trump hins vegar. Þeir sem hafa framhaldsskólamenntum og minna kjósa Trump. Þeir sem hafa menntast eftir framhaldsskóla kjósa Biden. Þessi munur á menntunarstigi sé greinilegastur meðal hvítra kjósenda. Meirihluti hvítra manna kaus Trump, meðal hvítra manna án æðri menntunar var 64% stuðningur við Trump en 52% hjá þeim sem hafa æðri menntun. Af konum kusu 60% án æðri menntunar Trump en 59% kvenna með æðri menntun kusu Biden.

O‘Neill segir að sumir skýrendur segi eðlilega að þessi munur á menntunarstigi kjósenda sýni að vel gefna fólkið kjósi Biden en hinir velji frekar Trump. Skoðun hans er hins vegar að þarna megi sjá greinileg merki um lykilhlutverk háskóla við að útbreiða nýja rétttrúnaðinn. Undanfarin ár hafi bandarískir háskólar á „enska-svæðinu“ breyst úr því að vera vé mennta og vísinda í innrætingarsmiðjur „góða fólksins“. Frá háskólunum sé hugmyndafræði nýju elítanna miðlað. Fyrir bragðið sé það ein af hlálegum þverstæðum samtímans að þeir sem ekki hafi stundað háskólanám virðist eiga auðveldara með að hugsa sjálfstætt og sýna viðnám gegn nauðungarstjórn rétt-hugsandi elítunnar en þeir sem hafi farið háskólabrautina.

Að svona mikill munur sé á viðhorfi háskólamenntaðra og hinna sé ekki til marks um heimsku menntunarlausa fólksins heldur um að háskólarnir hafi breyst í einskonar útungunarvélar í þágu yfirlætisfullra nýrra elítu-hópa.