2.6.2020 9:42

Trump magnar deilur

Nú á örlagastund hvetur hann til hörku og átaka úr Hvíta húsinu í stað þess að reyna að sætta þjóðina.

Í upphafi forsetaferils síns taldi Donald Trump sér til framdráttar að ráðast á ýmsa forystumenn bandamanna Bandaríkjanna. Hann vildi slá sig til riddara með yfirlýsingum um að Bandaríkjamenn hefðu látið féfletta sig innan NATO og í viðskiptum við vinaþjóðir svo að ekki sé minnst á Kína. Hann snerist gegn aðild að alþjóðasamtökum sem áttu rætur í friðarviðleitni Bandaríkjastjórnar eftir síðari heimsstyrjöldina og sköpuðu henni forystuhlutverk á alþjóðavettvangi.

Á heimavelli tók hann einnig slaginn, fyrst við fjölmiðlamenn sem hann taldi segja af sér falsfréttir, þá við eigin embættismenn og þingmenn. Innan flokks repúblíkana tókst honum að halda uppi aga með því til dæmis að beita sér harkalega í prófkjörum gegn frambjóðendum sem voru/eru honum ekki að skapi. Og nú á örlagastund hvetur hann til hörku og átaka úr Hvíta húsinu í stað þess að reyna að sætta þjóðina.

53653281_303Donald Trump við St. John's kirkju í Washington að kvöldi hvítasunnudags.

Undir kvöld hvítasunnudags sagði Donald Trump í garði Hvíta hússins að hann hefði mælt fyrir um veru „þung vopnaðra“ hermanna í Washington og sjálfur væri hann „forseti laga og reglu“.

Þegar forsetinn lét þessi orð falla beitti óeirðalögregla táragasi, gúmmíkúlum og hestum til að hrekja friðsama mótmælendur af Pennsylvania Avenue við Hvíta húsið áður en forsetinn, nánustu embættismenn hans og öryggisverðir fóru yfir breiðgötuna og um Lafayette-garðinn.

Hann fór að St. John‘s kirkju þar sem brennuvargar höfðu látið að sér kveða. Hann lyfti Biblíunni fyrir framan kirkjuna og sagði: „Land okkar er mikilfenglegt. Það verður mikilfenglegra en nokkru sinni fyrr. Ég ætla að gera það vinalegt og öruggt.“

Líklega hefði engum kvikmyndaleikstjóra dottið í hug að setja svona atriði á svið nema til þess að sýna að í algjört óefni væri komið. Þetta er þó það sem við blasir í Washington núna.

Utan og innan Bandaríkjanna vex reiði og undrun yfir framgöngu Trumps. Rök þeirra sem reyna enn að bera blak af honum verða sífellt veikari og fréttir sýna að varðstaðan um hann innan flokks repúblíkana er að bresta. Þeir sem bjóða sig fram til Bandaríkjaþings í kosningum í nóvember og töldu sér til framdráttar að vera í skjóli Trumps standa nú á berangri.