11.5.2023 10:08

Trump í CNN-samtali

Hann dró spyrjandann og áheyrendur, sem voru úr hópi repúblikana og óflokksbundinna kjósenda, með sér inn í heim lyga og blekkinga, þar stenst enginn Trump snúning.

Kaitlan Collins (31 árs) hjá bandarísku CNN­-sjónvarpsstöðinni ræddi við Donald Trump (76 ára) í 70 mínútur með hópi áhorfenda í St. Anselm College í New Hampshire að kvöldi miðvikudags 10. maí. Í Berlingske segir að Trump hafi komið sem sigurvegari frá umræðunum. Hann dró spyrjandann og áheyrendur, sem voru úr hópi repúblikana og óflokksbundinna kjósenda, með sér inn í heim lyga og blekkinga, þar stenst enginn Trump snúning.

70847117-12070465-image-a-13_1683774900819Kaitlan Collins ræðir við Donald Trump 10. maí 2023.

Trump sagði Kaitlan Collins „mjög kvikindislega“ þegar hún spurði hann ítrekað hvers vegna hann hefði geymt trúnaðarskjöl heima hjá sér. Hann talaði niður til rithöfundarins E. Jean Carroll sem sakaði hann um nauðgun, tók upp hanskann fyrir þá sem réðust inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021 og sagðist ekki hafa tapað fyrir Joe Biden í kosningunum 2020, það hefði verið haft rangt við í kosningunum.

Trump sagði Carroll „ruglukoll“ vegna ásakana hennar um að hann hefði nauðgað henni og ítrekaði að hann þekkti hana ekki, sakaði hana um „bellibrögð“ eftir að kviðdómur færði henni 5 milljónir dollara í bætur vegna kynferðislegrar áreitni og ærumeiðingar. Trump fór einnig hörðum orðum um dómarann í málinu. Hann hefði ekki gefið kviðdómnum færi á að heyra að hún „kallaði eiginmann sinn apa“ og að köttur hennar „héti Vagina“.

Þegar Trump var spurður um stríðið í Úkraínu sagðist hann ekki hugsa um hvor sigraði eða tapaði heldur að það yrði að stöðva þetta mikla mannfall. Yrði hann forseti myndi hann ljúka stríðinu á 24 tímum. Sigraði hann í kosningunum 2024 mundi hann hitta Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta og Vladimir Pútin Rússlandsforseta og binda enda á stríðið.

Donald Trump nýtur nú meira fylgis en aðrir sem orðaðir eru við forsetaframboð fyrir repúblikana í nóvember 2024. Hann er einnig sigurstranglegur gagnvart Joe Biden sem ætlar að bjóða sig fram að nýju en á minnkandi fylgi að fagna.

Trump hefur ekki verið á CNN síðan fyrir kosningarnar 2016. Kaitlan Collins var fréttaritari CNN í Hvíta húsinu í forsetatíð Trumps og fór ekki vel á með henni og forsetanum sem kenndi CNN við „falsfréttir“. Eitt sinn var Trump svo reiður vegna spurninga Collins í forsetaskrifstofunni að hann gaf fyrirmæli um að hún fengi ekki að fylgjast með viðburði í rósagarðinum við Hvíta húsið síðar sama dag.

Í dag (11. maí) birtist í breska vikuritinu The Spectator löng grein eftir heimskunna sagnfræðinginn Niall Ferguson undir fyrirsögninni: Trump’s second act: he can still win, in spite of everything – Annar þáttur Trumps: hann getur enn sigrað, þrátt fyrir allt.

Ferguson varar þá við sem halda að fella megi Trump með því að stefna honum fyrir dómstóla. Hann hafi einstakt lag á að snúa málaferlum í pólitískar ofsóknir gegn sér í huga almennings. Þá útiloki dómur í réttarsal ekki annars konar dóm kjósenda eins og til dæmis hafi sannast þegar Lula náði kjöri að nýju sem forseti Brasilíu þótt hann hefði setið í fangelsi, dæmdur fyrir spillingu.

Þar sem Trump er gilda engin venjuleg lögmál.