Trump „hjólar í“ May á örlagastundu
Enn sannast að Donald Trump Bandaríkjaforseti réttir leiðtogum evrópskra bandamanna sinna ekki hjálparhönd í pólitískum stórræðum.
Enn sannast að Donald Trump Bandaríkjaforseti réttir leiðtogum evrópskra bandamanna sinna ekki hjálparhönd í pólitískum stórræðum. Oft hefur hann vegið að Angelu Merkel Þýskalandskanslara og nú fær Theresa May, forsætisráðherra Breta, högg frá honum.
Barack Obama, forveri Trumps, lagði David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, lið í baráttunni gegn því að Bretar segðu skilið við ESB.
Barack Obama stóð þá með málstað breska forsætisráðherrans en nú beitir Trump sér af hörku gegn málstað Theresu May. Sama dag og hún flytur neðri deild breska þingsins skýrslu um Brexit-skilnaðarsamkomulagið sem leiðtogar 27 ESB-ríkja samþykktu sunnudaginn 25. nóvember og fullyrðir að það geri Bretum kleift að gera fríverslunarsamninga við lönd um heim allan, gengur Trump fram fyrir skjöldu og segir að „kannski“ geti Bretar ekki „átt viðskipti við Bandaríkjamenn“.
Trump bætti um betur með því að segja
samkomulag May við ESB „hljóma eins og stórgóða niðurstöðu fyrir ESB“. Hann
hvatti forsætisráðherrann til að skoða málið að nýju.
Trump „hjólar“ ekki aðeins á þennan hátt í May heldur velur hann versta tíma fyrir hana til þess, mánudaginn 26. nóvember, þegar hún reyndi að sannfæra eigin þingheim um ágæti samkomulagsins og boðaði tveggja vikna fundaherferð um allt Bretland til að kynna samkomulagið fyrir bresku þjóðinni.
Þrátt fyrir stuðning Obama varð málstaður Camerons undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hann sagði af sér. Pólitískt líf May er einnig í húfi núna. Hafni þingið samkomulagi hennar og ESB eru forsætisráðherradagar hennar taldir.
Bent er á að ummæli Trumps nú séu sambærileg við það sem Obama sagði árið 2016, fyrir bresku þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann komst þannig að orði: „Einhvern tíma á síðari stigum kann að verða til viðskiptasamningur Breta og Bandaríkjamanna, það gerist þó ekki neitt á næstunni ... Bretar verða aftast í röðinni.“
Hörðustu andstæðingar Brexit-samkomulags May fagna að sjálfsögðu afskiptum Trumps enda sköpuðust á sínum tíma tengsl milli hans og Nigels Farage, leiðtoga breska úrsagnarflokksins, UKIP.
Trump nýtur ekki vinsælda í Bretlandi. Andúð hans á May kann að styrkja stöðu hennar meðal almennings. Hún hefur aflað sér virðingar og trausts hjá mörgum undanfarna daga með einarðri framgöngu sinni. Falli hún ætlar hún að gera það með sæmd.