Trump handtekur Maduro
Ekki er ólíklegt að þegar frá líði verði vel heppnuð og fagmannleg handtaka einræðisherrans talin auðveldi hluti þess sem Trump ætlar sér gagnvart Venesúela.
Á þessari stundu veit enginn hvernig stjórn Venesúela verður háttað eftir að Bandaríkjaher fjarlægði Nicolas Maduro forseta og eiginkonu hans, Ciliu Flores, úr virki þeirra í Caracas aðfaranótt laugardagsins 3. janúar. Þau eru nú komin til Bandaríkjanna þar sem Maduro sætir ákæru fyrir fíkniefnasmygl og hryðjuverk gegn Bandaríkjunum.
Blaðamannafundur Donalds Trumps forseta á setri hans, Mar-a-Lago í Flórída, 3. janúar snerist að mestu um brottnám Maduros. Aðgerðin var þaulæfð mánuðum saman og gekk snurðulaust fyrir sig án þess að nokkru mannslífi væri fórnað.
Trump og menn hans fagna á blaðamannafundi í Mar-a-Lago 3. janúar 2026.
Ekki er ólíklegt að þegar frá líði verði vel heppnuð og fagmannleg handtaka einræðisherrans talin auðveldi hluti þess sem Trump ætlar sér gagnvart Venesúela. Eftir blaðamannafundinn er óljóst hvað gerist næst. Trump sagði að Bandaríkjamenn myndu taka stjórn á Venesúela (e. run). Hvernig ætla þeir að standa að því?
Sagan sýnir að skipulagðar og þaulæfðar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna skila skjótari og markvissari árangri en tilraunir þeirra til að breyta stjórnarháttum í ríkjum. Innrásin í Írak, stríðið í Afganistan og loftárásirnar á Líbíu og eftirleikurinn í þessum löndum eru til marks um það.
Í þjóðaröryggisstefnunni sem Trump-stjórnin birti fyrir nokkrum vikum var gæsla bandarískra hagsmuna á vesturhveli jarðar (e. Western Hemisphere) sett í fyrsta sæti. Þar lítur Bandaríkjastjórn til Suður-Ameríku, Kanada og Grænlands. Maduro er sakaður um að hafa stjórnað fíknihryðjuverkum gegn Bandaríkjunum. Trump lýsir forseta Kólumbíu sem svipuðum óvini og um Kúbu sagði hann á blaðamannafundinum 3. janúar: „Kúba er áhugaverður staður. Það gengur nú ekki beint vel þar núna. Við verðum að ræða það. Þar er þjóð í vanda.“
Trump og Marco Rubio, utanríkisráðherra hans, líta á þetta allt sem nágrannavanda Bandaríkjanna. „Við viljum að kringum okkur séu góðir nágrannar,“ sagði Trump á blaðamannafundinum. Hlýtur að fara hrollur um einræðisöflin í Nigarakva þegar þau fylgjast með þessari framvindu all
Í Moskvu, Peking og Teheran urðu ráðamenn einnig áhyggjufullir við fréttirnar frá Caracas. Trump boðaði að bandarískir olíurisar tækju að sér olíuvinnsluna í Venesúela og með því nær Bandaríkjastjórn geópólitísku forskoti.
Í The Telegraph er haft eftir heimildarmanni innan bandaríska stjórnkerfisins að með því að ná tökum á olíulindunum væri vegið harkalega að Kínverjum sem hefðu fest milljarða dollara í olíuvinnsluiðnaði Venesúela. Ef aukið magn olíu þaðan gerði Bandaríkjamönnum kleift að halda olíuverði niðri myndi það auk þess lækka tekjur Írana en stjórnvöld þar glíma nú þegar við mótmæli vegna bágra lífskjara og efnahagsþrenginga. Pútin hefur haldið síversnandi efnahag sínum á floti með leynilegri sölu á olíu. Lækkun á verði veldur honum vanda.
Árið 2026 hefst með mikilli óvissu á alþjóðavettvangi þar sem stórveldin keppast við að skapa sér svigrúm í næsta nágrenni sínu. Skyldu Kínverjar láta Tævan í friði?