7.4.2017 10:36

Trump gerir árás á flugher Assads

Hik og vanmáttur Obama í átökunum við Assad varð til þess að veikja trú margra bandamanna Bandaríkjamanna á að þeim mætti treysta á ögurstund.

 

Nýtt skref var stigið í sex ára stríði í Sýrlandi í nótt þegar 59 stýriflaugum var skotið frá bandarískum herskipum á Miðjarðarhafi á flugstöð sýrlenska hersins sem talin er hafa verið notuð til efnavopnaárása í landinu þriðjudaginn 4. apríl. Donald Trump Bandaríkjaforseti tók ákvörðun um árásina þrátt fyrir að hafa áður gefið til kynna að hann ætlaði hvorki að blanda sér í Sýrlandsstríðið né hrófla við einræðisherra Sýrlands, Bashar al-Assad.

Á sínum tíma hikaði Barack Obama við að láta til skarar skríða gegn Sýrlandsher vegna beitingar hans á efnavopnum gegn eigin þjóð þrátt fyrir að Obama segðist hafa dregið „rauða línu“; yrði slíkum vopnum beitt mundi hann svara af hörku.

Hik og vanmáttur Obama í átökunum við Assad varð til þess að veikja trú margra bandamanna Bandaríkjamanna á að þeim mætti treysta á ögurstund.

Obama og Pútín sömdu á sínum tíma um að fjarlægja skyldi efnavopn úr vopnabúrum Assads og hann skuldbinda sig til að fara að alþjóðasamningi um bann við efnavopnum. Sögðust eftirlitsmenn hafa gengið úr skugga um að vopnin hefðu verið fjarlægð.

Hvað sem öllu þessu líður hefur Assad ekki látið segjast. Að einræðisherrar komist upp með að beita eigin þjóðir bönnuðum gereyðingarvopnum er ögrun við frið og alþjóðareglu.

Harka Donalds Trumps í Mið-Austurlöndum og gegn Assad mælist almennt vel fyrir meðal annarra en bandamanna einræðisherrans sem situr í skjóli Rússa og Írana.

Borgarastríð í Sýrlandi hefur á nokkrum árum breyst í skugga-átök stórvelda. Árásin í nótt beinir athygli að raunverulegu eðli átakanna og ætti að hvetja til friðar áður en stríðið magnast enn frekar.