6.10.2020 9:49

Trump gefur vont fordæmi

Fordæmi og eftirgjöf ráða mestu um hvort veiran nær að dreifa sér í samfélögum þar sem yfirvöld hafa á annað borð tök á að stýra samskiptum fólks.

Nú að morgni þriðjudags 6. október segir ríkisútvarpið fréttir um að í gær hafi ekki greinst fleiri kórónuveirusmit hér síðan í vor, þegar faraldurinn stóð sem hæst. Þá urðu smitin flest á einum degi 24. mars þegar 106 manns greindust með veiruna.

Sagt er að bylgjan núna hafi hafist 15. september. Til þessa hefur mesti fjöldi á einum degi verið 75 smit, 18. september. Í gær voru smitin „töluvert fleiri“ – 99, þar af voru 59 í sóttkví.

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag:

„Því miður var slakað á aðgerðum innanlands 7. september, smitstuðullinn rauk upp, og þetta olli því að þriðja bylgjan byrjaði viku seinna. Einstaklingsbundnar smitvarnir innanlands skipta nefnilega meira máli en aðgerðir á landamærum. Smit munu alltaf komast inn í landið og mikilvægasta leiðin til að hindra að þau breiðist hratt út er að hafa ekki „frjóan jarðveg“ innanlands.“

Þegar Jón Ívar hreyfði svipuðum sjónarmiðum í sumar sætti hann harðri gagnrýni þeirra sem telja höfuðmáli skipta að loka smitleiðum við landamærin. Það hefur verið gert en samt er staðan sú sem hér er lýst.

55168281_303Þegar Donald Trump kom í Hvíta húsið að kvöldi 5. október tók hann af sér sóttvarnagrímuna til að ögra andstæðingum sínum og kórónuveirunni.

Fordæmi og eftirgjöf ráða mestu um hvort veiran nær að dreifa sér í samfélögum þar sem yfirvöld hafa á annað borð tök á að stýra samskiptum fólks. Um 210.000 manns hafa dáið af COVID-19-sóttinni í Bandaríkjunum engu að síður lætur Donald Trump Bandaríkjaforseti eins og það dugi að ögra veirunni með stórkarlalegum tilburðum, hann geti sannað það með eigin framgöngu.

Eftir að hafa verið þrjár nætur frá föstudegi 2. október á Walter Reed-sjúkrahúsinu vegna veirunnar útskrifaði forsetinn sig þaðan sjálfur mánudaginn 5. október. Gekk hann með sóttvarnagrímu af sjúkrahúsinu en tók hana af sér til ögrunar við Hvíta húsið þótt læknar segi hann ekki lausan við veiruna og sumir telji hann enn smitbera.

Á Twitter-myndskeiði sagði Trump: „Nú er ég betri og kannski er ég ónæmur.“ Sean Conley, læknir forsetans, var á öðru máli og sagði forsetann ef til vill ekki enn alveg á lygnum sjó (e. out of the woods).

Á myndskeiðinu sagði Trump að fólk ætti ekki að láta veiruna „ráða yfir sér“. Áður hafði hann skrifað á Twitter: „Verið ekki hrædd við COVID. Látið hana ekki stjórna lífi ykkar.“

Samtök þeirra sem hafa tekist á við kórónuveiruna í Bandaríkjunum gagnrýndu þessi ummæli forsetans, þau bæru vott um „kaldlyndi“ og væru „hættuleg“.

Raunar er allt sem Trump hefur gert síðan hann veiktist af veirunni einkennst af virðingarleysi fyrir öðrum. Hann stofnaði meira að segja eigin öryggisvörðum í hættu með ónauðsynlegri ökuferð í nágrenni sjúkrahússins.

Trump vill aðeins að það birtist sem hann telur sjálfum sér í hag. Allt ber það vott um annan veikleika en þann sem veiran veldur.

Styrkur leiðtoga birtist best á hættustund. Trump ræður ekki við sjálfan sig og gefur því vont fordæmi. Framganga hans er í hróplegu ósamræmi við allt sem talið er rétt og nauðsynlegt til að sigrast á veirunni.