9.10.2025 10:02

Trump-friður á Gaza

Það sannast enn á þeirri stöðu sem nú hefur skapast á Gaza hve slagkraftur Trumps og Bandaríkjamanna er mikill. Óvenjulegir starfshættir Trumps brjóta upp gömul mynstur og skapa þannig forsendur fyrir nýjar lausnir. 

Fyrsta skref Gaza-friðaráætlunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta var stigið í nótt þegar samkomulag náðist um vopnahlé. Það verður staðfest með afhendingu ísraelskra gísla (48) sem enn eru í haldi Hamas og frelsun palestínskra lífstíðarfanga (um 250) úr ísraelskum fangelsum auk þess fá fangar (um 1700) sem teknir hafa verið vegna Gaza-átakanna frelsi.

Stríðið á Gaza hófst 7. október 2023 þegar Hamas-hryðjuverkamenn réðust inn í Ísrael og drápu 1.200 manns en tóku 251 gísl. Stig af stigi sótti her Ísraels inn í Gaza með fyrirmælum um að gera út af við Hamas-liða sem höfðu búið um sig neðanjarðar, í skólum, sjúkrahúsum og fjölbýlishúsum.

Vegna átakanna hafa næstum allir íbúar Gaza, um 2,2 milljónir, orðið að flytja búferlum innan 365 ferkílómetra strandsvæðisins (41 km langt, 6 til 12 km breitt). Lokaárásir Ísraela beindust að Gaza-borg þar sem um 800.000 manns bjuggu.

Megi marka myndir eru mannvirki á Gaza-ströndinni rústir einar. Heilbrigðisráðuneytið á Gaza, sem laut stjórn Hamas eins og annað þar, segir að meira en 67.000 Palestínumenn hafi fallið í árásum Ísraela og næstum þriðjungur þeirra hafi verið undir 18 ára aldri.

Ísraelar töldu flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (SÞ), UNRWA, hafa veitt Hamas-liðum skjól og jafnvel aðstoð. Þeir hafa haldið starfsmönnum hennar frá hjálparstarfi á Gaza. Ísraelar hafa sjálfir flutt hjúkrunargögn og matvæli til Gaza til bjargar almennum borgurum. Er það einsdæmi fyrir innrásarher. Ísraelar vilja að UNRWA, sem stofnuð var 1949, verði lokað. SÞ telja að um 500.000 manns á Gaza séu nú á barmi hungursneyðar.

Screenshot-2025-10-09-at-10.00.25Myndin er tekin að morgni 9. október 2025 á Gaza-ströndinni.

Allt eru þetta hrikalegar tölur og lýsingar á afleiðingum hryðjuverks Hamas. Fyrir liggur að þeir sem skipulögðu hryðjuverkið ætluðu ekki aðeins að valda Ísraelum skaða á heimavelli heldur einnig að nota harkaleg viðbrögð þeirra til að blása til óvinafagnaðar gegn gyðingum um heim allan. Við höfum kynnst áhrifamætti þess hluta Hamas-áætlunarinnar hér á landi.

Það verður nú verkefni lýðræðisþjóða að skapa frið og jafnvægi innan eigin landamæra vegna deilnanna sem hafa orðið vegna Gaza-stríðsins.

Hernaðarlega hefur Ísraelum tekist að gjörbreyta öllu valdajafnvægi fyrir botni Miðjarðarhafs. Í fyrstu bjuggust þeir strax 7. október við árás frá skjólstæðingum Írana í Líbanon, Hezbollah. Síðar gerðu Ísraelar út af við Hezbollah í Líbanon, styrktu stöðu sína gagnvart Sýrlandi og settu kjarnorkuáætlun Írana úr skorðum með aðstoð Bandaríkjamanna, fyrir utan að lama sjálfir flugher og eldflaugakerfi Írana. Hútar, skjólstæðingar Írana í Jemen, skapa enn öryggisleysi á Rauða hafi en mega sín ekki mikils.

Það sannast enn á þeirri stöðu sem nú hefur skapast á Gaza hve slagkraftur Trumps og Bandaríkjamanna er mikill. Óvenjulegir starfshættir Trumps brjóta upp gömul mynstur og skapa þannig forsendur fyrir nýjar lausnir. Hann fer ekki í launkofa með vilja sinn og skoðanir heldur vinnur þeim fylgi með góðu eða illu. Vonandi bindur hann næst enda á Úkraínustríðið og losar heiminn við Pútin.