11.9.2024 12:17

Trump fór halloka fyrir Harris

Það var meira í húfi fyrir Harris en Trump því að hún hafði aðeins einu sinni áður fengið svipað tækifæri til að kynna bandarísku þjóðinni sig sjálfa þegar hún keppti við Mike Pence varaforseta í kosningabaráttunni árið 2020 og þótti ekki standa sig vel.

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, er sigurvegari í 90 mínútna sjónvarpseinvígi hennar við Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, að kvöldi þriðjudagsins 10. september.

Það var meira í húfi fyrir Harris en Trump því að hún hafði aðeins einu sinni áður fengið svipað tækifæri til að kynna bandarísku þjóðinni sig sjálfa þegar hún keppti við Mike Pence varaforseta í kosningabaráttunni árið 2020 og þótti ekki standa sig vel.

Screenshot-2024-09-11-at-12.16.52

Kamala Harris hefur lagt áherslu á að hún sé fulltrúi nýrra viðhorfa og nýs tíma. Svör Donalds Trumps við því eru að segja hana nýja útgáfu af Joe Biden sem hann segir „versta forseta með versta varaforseta í sögu lands okkar“. Harris benti á „upplausnina og sundrunguna“ sem fylgdi Donald Trump og sagði: „Bandaríska þjóðin hefur fengið sig fullsadda af sama gamla leiknum“ nú væri tímabært að „brjóta í blað“.

Harris stóðst ekki aðeins árásir Trumps heldur greip orð hans á lofti og sneri þeim að honum sjálfum þegar hann reyndi að koma henni úr jafnvægi.

Trump leitaðist hvað eftir annað við að snúa umræðuefninu að því sem honum er mest í mun að ræða: útlendingamálum og innflytjendum. Hann hóf pólitískan feril sinn árið 2016 með því að flagga þeim málum og nú sagði hann innrás hælisleitenda úr suðri til Bandaríkjanna ógna bandarísku þjóðfélagsgerðinni og sakaði Haitibúa í Springfield, Ohio um að leggja sér til munns bandaríska ketti og hunda, „þeir éta gæludýrin,“ sagði hann.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Trump hélt þessu fram og hann lætur sem vind um eyru þjóta þegar bent er á að þessi fullyrðing hans sé röng.

Trump sakaði Harris um að hlaupast undan ábyrgð og sagði hana vera Joe Biden „Ég er ekki Joe Biden og ég er alls ekki Donald Trump,“ svaraði hún.

Harris sagði að leiðtogar annarra ríkja hefðu Trump að aðhlátursefni. Hún hefði talað við háttsetta herforingja sem unnu með honum og teldu hann til skammar. Til að vita hver hann væri þyrftu menn ekki annað en spyrja þá sem störfuðu við hlið hans í Hvíta húsinu. Fjögurra stjörnu hershöfðingi sem stjórnaði starfsliði Trumps segði hann fordæma stjórnarskrá Bandaríkjanna. Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi hans segði hann hættulegan og óhæfan. Fyrrverandi varnarmálaráðherra hans segði að þjóðin myndi ekki lifa af annað kjörtímabil með Trump.

Trump sagði að hann myndi binda enda á stríðið í Úkraínu fyrir næstu áramót, það er áður en hann tæki formlega við forsetaembættinu. Hann lýsti Harris sem óvini Ísraels og einnig Araba, Ísraelsríki yrði að engu innan tveggja ára yrði hún kjörin.

Hún sagði það á almennu vitorði að Trump væri aðdáandi einræðisherra og frá fyrsra degi með forsetaumboð myndi hann fara að stjórnarháttum þeirra enda dreymdi þá um að hann yrði forseti.

Þetta er aðeins lítið brot af því sem sagt var í kappræðunum. Þær leiddu til þess að ofurstjarnan Taylor Swift birti á vefsíðu sinni yfirlýsingu til stuðnings Kamölu Harris og birti af sér mynd með kisuna sína í fanginu og með undirskriftinni: Barnlaus kattarkona. Er það árás á JD Vance varaforsetaefni Trumps sem lýsti Kamölu Harris með þessum orðum í niðurlægingarskyni.