7.11.2020 11:00

Trump fær um 70 milljón atkvæði – I.

Trump er með næst mesta fylgi sem nokkur bandarískur forsetaframbjóðandi hafi hlotið. Þetta er stórmerkilegt, merkilegra en hvað Biden hlaut mörg atkvæði.

Brendan O'Neill er ritstjóri vefsíðunnar spiked. Hann hikar ekki við að fara ótroðnar slóðir í skýringum sínum á málefnum líðandi stundar og láta í ljós skoðanir sem ekki eru að skapi þeirra sem aðhyllast pólitískan rétttrúnað. Hann skrifaði um úrslit bandarísku forsetakosninganna föstudaginn 6. nóvember.

Hann segir að Joe Biden hafi fengið fleiri atkvæði en nokkur annar verðandi forseti í sögu Bandaríkjanna, rúmlega 73 milljónir þegar O‘Neill skrifaði grein sína. Hann hafi slegið met Baracks Obama frá 2008 þegar hann hlaut 69,5 milljón atkvæði undir slagorðinu HOPE. Menn megi hins vegar ekki gleyma því að Donald Trump hafi einnig fengið meiri stuðning en Obama með 69,7 milljón atkvæði að baki sér þegar O‘Neill skrifaði texta sinn. Trump sé því með næst mesta fylgi sem nokkur bandarískur forsetaframbjóðandi hafi hlotið. Þetta sé stórmerkilegt, merkilegra en hvað Biden hlaut mörg atkvæði.

Trump-rally-5-800x480Í langri grein rösktyður Brendan O'Neill þessa skoðun sína.

Mikið fylgi Trumps sé ekki síst merkilegt fyrir þá sök að hann sé sá einstaklingur sem ætlast sé til að allir hati um þessar mundir. Í fjögur ár hafi hann setið undir stöðugum árásum mennta- og menningar elítunnar. Hann hafi varla notið stuðnings nokkurs bandarísks fjölmiðils árið 2020. Hann sé fyrirlitinn af alþjóðastofnunum. Háskólasamfélögin, fjölmiðlaelítan, auðjöfrarnir sem eiga samfélagsmiðlanna, frægu stjörnurnar og aðrir gífurlega áhrifamiklir hópar hafi stimplað hann sem Hitler 21. aldarinnar og fullyrt að aðeins þeir sem trúi á „yfirburði hvíta kynstofnsins“ geti hugsað sér að kjósa hann. Ekki sé sagður brandari á austurströnd Bandaríkjanna án þess að veitast að honum af yfirlæti og hvarvetna sé hann skotmark þeirra sem stofna til óeirða á götum úti. Mjög gáfað fólk segi okkur stöðugt að hann sé versta sendingin inn í stjórnmálalíf Vesturlanda í marga áratugi.

Þrátt fyrir allt þetta njóti Trump stuðnings um 70 milljón Bandaríkjamanna, fólks sem láti mennta- og menningar elítuna ekki segja sér fyrir verkum, hafi engan áhuga á því sem hún hafi fram að færa. Hafi myndað með sér einskonar ónæmi gegn viðhorfinu sem sett hafi svo sterkan svip á stjórnmála- og fjölmiðlamenn undanfarin ár, á ensku er orðið woke notað til að lýsa þessu viðhorfi. Ég hef ekki enn rekist á hentugt íslenskt orð en hér er stundum talað um „góða fólkið“ til að lýsa þeim sem setja sig á háan hest gagnvart öðrum vegna þessara skoðana sinna.

Í hópi kjósenda Trumps séu þeir sem sjái sér best borgið með því að hafa að engu fyrirmæli þeirra sem telja sig „hugsa rétt“, fólkið kjósi einfaldlega eins og það telji falla best að eigin hag og sjónarmiðum. Þessir kjósendur hafi fyrirvara gagnvart þeim sem hamri á and-rasisma, boði loftslagshörmungar eða endurtaki þvæluna sem setji svip sinn á málflutning pólitískra og menningarlegra álitsgjafa, það er nýja hugmyndafræði ráðandi stéttar.

Framhald síðar.