10.3.2025 11:49

Trump espar Kanadamenn og Grænlendinga

Donald Trump blandar sér blygðunarlaust í kosningabaráttuna á Grænlandi. Í Kanada kemur nýr forsætisráðherra í stað Justins Trudeau sem var í ónáð hjá Trump og sætti ónota frá honum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti gerir það ekki endasleppt við Grænlendinga sem ganga til þingkosninga á morgun, þriðjudaginn 11. mars. Að kvöldi 9. mars sagði Trump á miðli sínum Truth Social:

„Eins og skýrt kom fram í ræðu minni á Bandaríkjaþingi styðja Bandaríkin einarðlega rétt Grænlendinga til að ákveða eigin framtíð. Við munum halda áfram að VERNDA YKKUR eins og við höfum gert síðan í annarri heimsstyrjöldinni. Við erum tilbúnir til að SETJA MILLJARÐA DOLLARA Í FJÁRFESTINGAR til að skapa ný störf og GERA YKKUR RÍK. – Og fari svo að þið viljið það munum við fagna ykkur sem hluta af mestu þjóð alls heimsins, Bandaríkjum Ameríku!“

Hér er ekki verið að skafa utan af hlutum og farið leynt með íhlutun í kosningar í lýðræðislandi, lofað er öryggi, gulli og grænum skógum snúi Grænlendingar baki við Danmörku og halli sér að Bandaríkjunum.

Um svipað leyti og Trump biðlaði á þennan hátt til Grænlendinga urðu formannsskipti í Frjálslynda flokknum í Kanada. Justin Trudeau sem setið hefur í rúm níu ár sem forsætisráðherra er í ónáð hjá Trump sem hefur ráðist á hann persónulega. Í stað Trudeus kusu 86% frjálslyndra Mark Carney, fyrrverandi seðlabankastjóra Kanada og síðar Bretlands, leiðtoga sinn.

Carney hefur hvorki setið á þingi né í ríkisstjórn. Hann tekur innan fárra daga við embætti forsætisráðherra. Hans bíður að glíma við Trump sem hefur hótað að innlima Kanada og hafið viðskiptastríð til að hefna sín efnahagslega á næsta nágrannaríki sínu í norðri. Í þakkarræðu eftir kjörið varði Carney sjálfstæði Kanada og sagði landið aldrei verða hluta Bandaríkjanna.

Okkur Íslendinga varðar miklu hvað gerist í nágrannalöndum okkar í vestri. Kanadamenn ganga til kosninga í síðasta lagi næsta haust en ekki er ólíklegt að kosið verði fyrr til að tryggja stjórn landsins skýrt umboð þjóðarinnar.

24906858-mte-b-egede-til-den-sidste-valgdebat-fr-valgetMúte B. Egede ræðir við danska ríkisútvarpið.

Vegna afskipta Trumps af stöðu Grænlands í danska konungdæminu ákvað Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, að flýta kosningunum á Grænlandi. Í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, sunnudaginn 8. mars sagði Egede:

„Allt það sem gerist nú í heiminum veldur mér töluverðum áhyggjum. Skipan heimsmála er víða völt og í Bandaríkjunum er forseti sem er mjög óútreiknanlegur og veldur með því öryggisleysi meðal fólks.“

Í þingræðunni sem Trump nefndi í færslu sinni að kvöldi 9. mars sagði hann að stjórn sín myndi á einn veg eða annan ná tökum á Grænlandi.

Þeir sem nú ráða ferðinni meðal Grænlendinga kunna ekki að meta íhlutun af þessu tagi, þeir vilja áfram vinsamleg samskipti við Bandaríkin en á forsendum danska konungdæmisins með meira valdi Grænlendinga á eigin málum en þeir hafa þar núna.

Á Grænlandi hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að Trump sýni Grænlendingum virðingarleysi og tali niður til þeirra. Flokkurinn Naleraq, sem í upphafi kosningabaráttunnar var jákvæðastur í garð tengsla við Bandaríkin, leggur ekki eins mikla áherslu á þau og áður.

Mikið er í húfi á Grænlandi og gjörbreyting á stöðu landsins innan danska konungdæmisins hefur áhrif hér. Til hennar kemur hvort sem Grænlendingar snúa sér í vestur eða austur í kosningunum.