22.12.2020 9:44

Trump enn til alls vís

Trump á nú einn mánuð eftir í embætti og sættir sig ekki enn við að hafa tapað kosningunum fyrir Joe Biden.

Um það var fjallað í mörgum bandarískum fjölmiðlum um helgina að hitafundur hefði verið haldinn í Hvíta húsinu í Washington föstudaginn 18. desember þar sem lögfræðingurinn Sidney Powell, sem er þekkt fyrir samsæriskenningar, og fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, Micahel Flynn, nýlega náðaður af forsetanum, hafi deilt við nokkra af ráðgjöfum forsetans.

Sagt er að Flynn hafi hreyft þeirri hugmynd að Trump lýsti yfir neyðarástandi og sendi hermenn til að knýja fram nýjar kosningar í nokkrum ríkjum. Er þessu líkt við að þarna hafi verið lagt á ráðin um að setja herlög til að ógilda kosningarnar 3. nóvember 2020.

Rudy Giuliani, fyrrv. borgarstjóri New York, sem veitt hefur Trump lögfræðileg ráð og komið fram fyrir hans hönd opinberlega vegna misheppnuðu kosninga-málaferlanna fyrir dómstólum., snerist gegn beitingu hervalds til að knýja fram nýjar kosningar í þeim ríkjum þar sem úrslit forsetakosninganna réðust. Hann á hins vegar að hafa hreyft þeirri hugmynd að gera kosningavélar þar upptækar til að sanna að brögð hefðu verið í tafli.

AP20324800868524-640x400Sidney Powell hvíslar í eyrað á Rudy Giuliani.

Þá er einnig fullyrt að forsetinn hafi hreyft hugmynd um að skipa Sidney Powell sem einskonar sérstakan saksóknara til að rannsaka kosningasvindlið. Bill Barr sem starfar sem dómsmálaráðherra fram á Þorláksmessu segir út í hött að hefja sérstaka rannsókn á framkvæmd kosninganna. Dagar hans í embætti voru taldir þegar hann hafnaði samsæriskenningum Trumps og manna hans um kosningasvindl.

Trump á nú einn mánuð eftir í embætti og er það sem að ofan segir til marks um að hann sætti sig ekki enn við að hafa tapað kosningunum fyrir Joe Biden og sé enn til alls vís við beitingu forsetavaldsins á lokametrunum.

Fréttaskýrendur eru hins vegar teknir til við að semja lista yfir ávirðingar sem tengjast setu Trumps í forsetaembættinu. Þar má nefna:

  • Hann herjaði á leyniþjónustustofnanirnar og dómsmálaráðuneytið.
  • Hann sakaði hæstarétt um að sýna sér ekki næga hollustu og póstþjónustuna fyrir afgreiðslu póstatkvæða.
  • Hann birti hvorki skattframtöl sín né sagði sig frá viðskiptum.
  • Hann notaði eignir ríkisins í flokkspólitískum tilgangi, þar á meðal Hvíta húsið sem bakgrunn þegar hann þakkaði flokknum fyrir tilnefningu til endurkjörs.
  • Hann skipaði þjóðvarðliðum að ryðja á brott að mestu friðsömum mótmælendum við Hvíta húsið svo að hann gæti látið taka af sér mynd í áróðursskyni.
  • Hann ýtti undir efasemdir um NATO og önnur bandalög sem áður nutu friðhelgi.

Þetta gerðist allt áður en Trump neitaði að viðurkenna úrslit kosninganna 2020 og þrjóskaðist við að láta af embætti.