21.11.2023 10:22

Trump berst við „meindýr“

Trump líkir pólítískum andstæðingum sínum við „meindýr“ sem verði að „útrýma“.

Donald Trump blæs nú í þriðja sinn til orrustu um Hvíta húsið og bandarískir fréttaskýrendur segja að tónninn í framboðsræðum hans hafi breyst. Heiftin í garð andstæðinganna sé jafnvel meiri en áður og greina megi tón sem sé ógnvekjandi.

Minnt er á að Trump hafi risið til valda í krafti málflutnings sem miðaði að því að styrkja Bandaríkin út á við. Hann boðaði hert útlendingalög og stöðvun á straumi ólöglegra innflytjenda yfir landamærin frá Mexíkó. Honum var mikið í mun að setja Bandaríkin í fyrsta sæti, fremst meðal allra ríkja heims. Nú beini hann spjótum sínum mest að andstæðingum sínum innan Bandaríkjanna.

_131747323_gettyimages-1259028789-1

Í ræðu sem Trump flutti 11. nóvember þegar minnst var fallinna og fyrrverandi hermanna fullyrða sumir að hann hafi talað í anda þeirra sem síðar sölsuðu undir sig öll völd í Þýskalandi og Ítalíu  í aðdraganda annarrar heimsstyrjaldarinnar. Hann líki pólítískum andstæðingum sínum við „meindýr“ sem verði að „útrýma“.

„Ógnin sem kemur að utan,“ sagði Trump „er ekki næstum því eins óhugnanleg, hættuleg og alvarleg og ógnin sem kemur að innan.“

Í The New York Times (NYT) segir mánudaginn 20. nóvember að sérfræðingum í einræðisstjórnarfari hafi lengi þótt nóg um lofsyrði Trumps um erlenda einræðisherra og virðingarleysi hans gagnvart hugsjónum í anda lýðræðis. Nú sé þeim verulega brugðið þegar hann beiti sér með slíkum málflutningi gegn andstæðingum sínum á heimavelli. Það sé eitt helsta einkenni hættulegra alræðisherra að útmála innlenda óvini sína á herfilegasta hátt.

Í NYT er rætt við prófessor Ruth Ben-Ghiat við New York-háskóla sem hefur meðal annars ritað bókina Strongmen – Mussolini To The Present. Hún segir að í ræðum Trumps heyrist greinilega bergmál liðins tíma. Markmiðið sé að sverta einstaklinga til að almenningur hafi ekki samúð með þeim þegar næsta skref sé stigið gegn þeim.

Fullyrt er að Trump ætli sér, nái hann kjöri, að nota dómsmálaráðuneytið til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum, valdsvið forsetans verði aukið og skoðanabræður meðal lögfræðinga hafnir til áhrifa til að leggja blessun sína yfir nýju stjórnarhættina.

Bandamenn Trumps segja allt þetta tal úr lausu lofti gripið og segi meira um pólitíska andstæðinga hans en áform frambjóðandans.

Steven Cheung, upplýsingafulltrúi kosningaskrifstofu Trumps, svaraði gagnrýni á notkun á orðinu „meindýr“ með þeim orðum að hún væri viðbragð vinstrisinna en „döpur, ömurleg tilvist þeirra [yrði] að engu þegar Trump [sneri] til baka í Hvíta húsið“.

Öfgafull afstaða Trumps birtist hvar sem hann lætur að sér kveða. Hann snýr öllu mótlæti í pólitískt vopn gegn andstæðingum sínum. Sést það vel á viðbrögðum hans í réttarsal í New York þar sem hann er sakaður um bókhaldssvik til að auka eigið lánshæfi. Hvarvetna er hann saklausa fórnarlambið sem krefst frelsis til að hefna harma sinna. Vei, þeim sem á vegi hans verða!