27.3.2017 14:29

Trump afvegaleiðir álitsgjafa

Spuni Bandaríkjaforseta hefur áhrif á suma álitsgjafa eins og sannaðist í forystugrein Fréttablaðsins mánudaginn 27. mars sem skrifuð er af Magnúsi Guðmundssyni.

Breska blaðið The Sunday Times sagði 26. mars að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði afhent Angelu Merkel Þýskalandskanslara meira en 374 milljarða dollara reikning til að sanna hve mikið Þjóðverjar „skulduðu“ NATO fyrir að verja sig. Bar blaðið ónafngreindan þýskan ráðherra fyrir fréttinni. Hann sagði að Merkel hefði ekkert sagt um reikninginn. Michael Short, talsmaður bandaríska forsetaembættisins, sagði við CNBC-fréttastofuna, að þetta væri „falsfrétt“.

Hvað sem hæft er í þessari frétt sýnir hún aðeins hve Trump gengur langt til að árétta skoðun sína.  NATO er ekki eins og klúbbur þar sem félagarnir stofna til skuldar greiði þeir ekki „aðildargjald“. Innan NATO er ekkert slíkt gjald innheimt. Á fundi sínu í Wales árið 2014 settu ríkisoddvitar NATO-landanna sér það mark að á árinu 2024 yrðu útgjöld þeirra til varnarmála 2% af vergri landsframleiðslu þeirra. Trump breytir þessu ekki hvaða brögðum sem hann beitir.

Spuni Bandaríkjaforseta hefur áhrif á suma álitsgjafa eins og sannaðist í forystugrein Fréttablaðsins mánudaginn 27. mars sem skrifuð er af Magnúsi Guðmundssyni sem segir að „þessi gjörningur Bandaríkjaforseta“ að afhenda Merkel „reikninginn“ hljóti að „vera íslenskum ráðamönnum umhugsunarefni þar sem við erum aðildarþjóð NATO“. Magnús telur einnig „meira en tímabært að við tökum aðild okkar að umræddu hernaðarbandalagi til endurskoðunar“ af því að rúm 10 ár séu liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Þá hafi heimurinn breyst „á þeim áratugum sem hafa liðið frá stofnun NATO er heimurinn gjörbreyttur. Þar með hafa líka gjörbreyst möguleikar smáríkis á borð við Ísland til að hafa áhrif til góðs og til þess getum við horft. Ágætt dæmi er framganga Íslands á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu sem sýndi heiminum að litlar þjóðir geta líka verið stórar fyrirmyndir. En það þarf hugrekki til að vera herlaus þjóð sem mælir fyrir friði í heiminum.“

Þegar þetta er lesið má spyrja hvort höfundurinn telji virkilega meira máli skipta að friðsamar, herlausar þjóðir tali fyrir friði á kvennaþingi SÞ en innan NATO.

Jafnframt er augljóst að höfundurinn gerir sér ekki grein fyrir breytingunum í öryggismálum sem orðið hafa undanfarin þrjú ár og áhrifum þeirra á þróun mála í nágrenni Íslands.

Nauðsynlegt er að ræða öryggi Íslands á allt öðrum forsendum en þeim sem Donald Trump gerir með því að tala um málefni NATO eins og hann sé að fjalla um reikningsuppgjör fyrirtækis eða félags.