21.8.2019 10:04

Trump aflýsir vegna Grænlands

Bægslagangur Trumps á heimavelli og gagnvart öðrum þjóðum er til þess eins fallinn að draga athygli að persónu hans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti bauð sjálfum sér til Danmerkur og dönsk stjórnvöld ákváðu að taka hann á orðinu og hann fékk boð um opinbera heimsókn. Að forsetinn ætlaði að ræða um kaup á Grænlandi við dönsk stjórnvöld kom síðan öllum í opna skjöldu. Frá kaupáformum forsetans var ekki skýrt fyrr en föstudaginn 16. ágúst í blaðinu The Wall Street Journal.

Í Danmörku, Grænlandi og Bandaríkjunum lýstu menn undrun yfir fréttinni í blaðinu og hún minnkaði ekki þegar forsetinn staðfesti áhugann á að eignast Grænland á Twitter. Mette Fredreksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði landið ekki til sölu. Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, hafnaði einnig hugmynd Trumps.

ECXzFuBXkAc0DbfTrump brást ekki illa við þessari mynd á Twitter en sagðist ekki ætla að ráðast í slíka framkvæmd á Grænlandi.

Mette Fredreksen fór til Grænlands laugardaginn 17. ágúst á leið á fund með forsætisráðherrum Norðurlanda og Angelu Merkel Þýsklandskanslara í Reykjavík 19. og 20. ágúst. Í Grænlandi sagði danski forsætisráðherrann:

„Grænland er ekki til sölu. Grænland er ekki danskt. Grænland er grænlenskt. Ég leyfi mér enn að vona að þetta sé ekki sagt í alvöru,“

Þessi von forsætisráðherrann brást. Trump var alvara og hann sagði á Twitter að kvöldi þriðjudags 20. ágúst:

„Danmörk er alveg sérsakt land og íbúarnir ótrúlegir en vegna þess sem Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur sagt um að hún hafi engan áhuga á að ræða kaup á Grænlandi fresta ég þar til síðar fundi okkar sem ætlunin var að halda eftir tvær vikur. Með því að vera svona afdráttarlaus hefur forsætisráðherrann sparað bæði Bandaríkjamönnum og Dönum töluverð útgjöld og umstang. Fyrir það þakka ég henni og við finnum annan fundartíma í framtíðinni.“

Dönsk og bandarísk stjórnvöld verða að vinna úr þeirri stöðu sem nú er uppi. Grænlenskur þingmaður á danska þinginu sagði við BBC að morgni miðvikudags 21. ágúst að heima í Grænlandi hefðu menn tekið þessum orðum Bandaríkjaforseta á annan veg ef Barack Obama hefði sagt þau. Trump og afstaða hans til minnihlutahópa höfðaði ekki til Grænlendinga.

Bægslagangur Trumps á heimavelli og gagnvart öðrum þjóðum er til þess eins fallinn að draga athygli að persónu hans. Annað og meira er þó í húfi í samskiptum vinaþjóða á norðurslóðum en það sem Trump finnst eða segir. Að baki áformunum um heimsókn forsetans til Danmerkur bjó vilji til að staðfesta bandaríska áherslu á norðurslóðir. Að áhuginn væri svo mikill að kaupa yrði Grænland sýnir óskynsamlegt hömluleysi, ekki síst í samvinnu náinna bandamanna.