Trump á lokametrunum
Innan flokks repúblikana vilja æ fleiri að allt verði gert til að stjórnmálabrölti Trumps linni.
Fyrir réttri viku birtist hér pistill um að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði sigað fólki á þinghúsið í Washington, Capitol, miðvikudaginn 6. janúar. Þá risu stuðningsmenn Trumps honum til varnar og sögðu ómaklega að honum vegið. Meira að segja hér á landi hafa einhverjir sterkar taugar til hans.
Að kvöldi miðvikudags 13. janúar varð Trump fyrsti forseti Bandaríkjanna til að verða í annað sinn ákærður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna embættisbrota. Ákæran var samþykkt með 232 atkvæðum gegn 197, þar er forsetinn talinn sekur um inciting insurrection – að hvetja til uppreisnar – þegar fylgismenn hans réðust á Capitol með því afleiðingum að fimm féllu í valinn, þar á meðal lögreglumaður.
Demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði að Trump yrði að hverfa strax úr embætti því að þjóðinni stafaði bráð hætta af honum. Hann hefði hvatt hryðjuverkamenn úr hópi heimamanna til ódæðisverka.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærir Trump í annað sinn.
Tíu þingmenn repúblikana gengu til liðs við demókrata í atkvæðagreiðslu um ákæruna. Nokkrir bandamenn Trumps tóku til varna fyrir hann en flestir þingmenn repúblikana létu við það sitja að gagnrýna hraða meðferð málsins, afgreiðsla þess kynni að brjóta gegn stjórnarskránni.
Á sama tíma og þingmenn ræddu ákæru-tillöguna og hlut forsetans í árásinni á Capitol birti Trump yfirlýsingu til stuðnings viðvörunum um hættu á óeirðum víðsvegar um Bandaríkin þegar Joe Biden tekur við forsetaembættinu miðvikudaginn 20. janúar. Trump fordæmdi ofbeldi, lögbrot og skemmdarverk í tengslum við embættistökuna.
Nú gæta vopnaðir þjóðvarðliðar Capitol og öll öryggisgæsla verður enn hert þegar nær dregur embættistökunni. Þá verða um 20.000 þjóðvarðliðar við gæslustörf Í Washington. Trump gegnir engu hlutverki þar og hefur afþakkað boð um að vera við athöfnina. Mike Pence varaforseti verður meðal gesta Bidens.
Trump talaði niður til Pence í æsingaræðunni 6. janúar en þeir hittust í byrjun þessarar viku og gerðu út um ágreining sinn á lokadögum forsetaferils Trumps. Dáðst er að langlundargeðinu sem Pence hefur sýnt forsetanum en Trump getur ekki vikið varaforsetanum úr embætti.
Ákæran á hendur Trump verður tekin til meðferðar í öldungadeild þingsins. Repúblikanar hafa meirihluta þar til 20. janúar en Mitch McConnell, leiðtogi þeirra í deildinni, vill ekki að hún taki ákæruna á dagskrá fyrr en eftir þann dag og þá undir stjórn demókrata. Aldrei fyrr hefur forseti sætt ákæru svo skömmu fyrir embættismissi hans og aldrei fyrr hefur ákæra á hendur forseta verið tekin til meðferðar eftir að hann lætur af embætti.
Hvað sem líður meðferð þessarar ákæru getur Trump átt yfir höfði sér annars konar ákærur fyrir ýmis lögbrot. Velta stjórnmálaskýrendur og lögspekingar fyrir sér hvort forseti geti tryggt að hann verði ekki dreginn fyrir lög og rétt eftir að hann lætur af embætti. Á þetta og margar aðrar lagaflækjur reynir þegar Trump hverfur úr Hvíta húsinu. Innan flokks repúblikana vilja æ fleiri að allt verði gert til að stjórnmálabrölti Trumps linni.