Trén eru fleygur í Samfylkingu
Trén í Öskjuhlíð kljúfa ekki aðeins meirihlutann í borgarstjórninni. Samfylkingin er klofin ofan í rót vegna þeirra.
Hlé var gert á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 4. febrúar 2025 eftir að Einar Þorsteinsson borgarstjóri og aðrir úr framsókn studdu framgang tillögu sjálfstæðismanna um að tryggja Reykjavíkurflugvelli sess í aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040 í stað 2032.
Einar Þorsteinsson sagði sunnudaginn 9. febrúar í samtali á Sprengisandi Bylgjunnar að í hléinu hafi hann og félagar hans verið sakaðir „um það að fara í árás gegn Samfylkingu“. Þarna hefði fyrst verið „fært í orð að það séu slit á meirihlutasamstarfinu vegna þess hvernig framsókn gekk fram“.
Sagðist Einar hafa verið „sakaður um að tala ekki fyrir stefnu meirihlutans og þetta væri árás á Samfylkinguna“. Það hefði einfaldlega runnið „upp fyrir borgarstjórnarhópi framsóknar“ að hann kæmist ekki áfram með nein mál sín.
Einar segir að þarna hafi hrikt í meirihlutasamstarfinu, þarna sé kveikjan að ákvörðun sinni gegn meirihlutasamstarfinu að kvöldi föstudagsins 7. febrúar.
Þetta er rökrétt frásögn hvað sem oddvitum Samfylkingar, Pírata eða Viðreisnar finnst. Þær hafa dregið upp eigin mynd af atburðarásinni til að koma höggi á Einar með þeim barnalegu rökum að ákvörðun hans hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er eðli einhliða ákvarðana að þær koma oftast einhverjum á óvart en breytast ekki við það.
Hvort sem spurningin um framtíð flugvallarins er eina málið sem olli uppnámi milli Einars og samstarfsfólks hans eða ekki, varð það kveikjan að örlagaríkri atburðarás liðinnar viku. Lokun einnar brautar flugvallarins var á næsta leiti vegna þess að meirihlutinn gat ekki sameinast um að fella tré í Öskjuhlíðinni. Allir gálgafrestir voru liðnir en samt stofnaði Samfylkingin til óvinafagnaðar vegna málsins í meirihlutanum. Andi Dags B. Eggertssonar sveif yfir vötnunum en tafaleikir hans höfðu leitt til þess að nú var allt komið í eindaga.
Perlan – Öskjuhlíð.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra glímir nú við Dag B. í þingflokki Samfylkingarinnar en í Flokki fólksins er Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra sem sagði 5. febrúar ríkisstjórnina einhuga um að standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Samfylkingarmaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hrópaði í stefnuræðuumræðum á þingi 10. febrúar að ríkisstjórnin stæði með Reykjavíkurflugvelli á meðan annar jafn góður eða betri kostur væri ekki tilbúinn og Eyjólfur ráðherra hefði „gert borgarstjóra Reykjavíkur fullljóst að fella [yrði] tré í Öskjuhlíð sem [hefðu] valdið lokun á austur-vesturflugbrautinni í Vatnsmýri“. Grípa yrði „til sérstakra aðgerða ef frekari tafir“ yrðu á þessu.
„Sérstöku aðgerðirnar“ hljóta að verða á vettvangi Samfylkingarinnar. Í borgarstjórn hefur hún leitt andstöðuna gegn flugvellinum undir forystu Dags B. Eggertssonar. Trén í Öskjuhlíð kljúfa ekki aðeins meirihlutann í borgarstjórninni. Samfylkingin er klofin ofan í rót vegna þeirra.