4.3.2019 10:17

Traustið minnkar

Pólitísk forysta meirihlutans er engin og hvert vandræðamálið rekur annað.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í leiðara Fréttablaðsins í dag (4. mars):

„Í nýrri mælingu Gallups á trausti til stofnana kemur í ljós að traust almennings á Alþingi og borgarstjórn Reykjavíkur er enn minna en á bönkunum. Traust til Alþingis var að hífast upp, en þá fóru nokkrir fulltrúar þjóðarinnar á alræmt fyllirí. Þeir sitja enn á þingi, í óþökk þjóðarinnar. Nú er traust til Alþingis 18 prósent og í sömu könnun mælist minnst traust til borgarstjórnar eða 16 prósent. Það hefur ekki farið framhjá þjóðinni að algjör ringulreið ríkir í Ráðhúsinu og hún sér enga ástæðu til að treysta þeim fulltrúum sínum sem þar sitja.“

Þetta er dapurleg lýsing á afstöðu almennings til þingsins og stjórnar fjölmennasta sveitarfélagsins.

Hafi það verið tilgangurinn með því að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23 að efla tengsl borgarstjórnar við borgarbúa og auka trúnað á milli kjósenda og umbjóðenda þeirra á þann hátt hefur það gjörsamlega mistekist. Veik forysta kjörinna fulltrúa í meirihluta borgarstjórnar birtist nýlega í því að borgarritari sá sig knúinn til að skapa embættismönnum svigrúm til starfa með því að hallmæla borgarfulltrúum minnihlutans. Pólitísk forysta meirihlutans er engin og hvert vandræðamálið rekur annað. Þessi vandi verður ekki leystur með rafrænum aðferðum eins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs, boðaði í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 2. mars.

Trust-equals-zeroÞegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur birtist 30. nóvember 2017 vakti áherslan á að styrkja alþingi sérstaka athygli: „Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu,“ segir þar.

Unnið hefur verið að þessu t.d. með fjölgun aðstoðarmanna þingmanna. Hætt er við að sú vinna skili litlu sé yfirbragð þingstarfa á þann veg að hvorki veki traust né virðingu. Líklega hefur verið gengið allt of langt á þeirri braut af hálfu þingmanna að ræða dægurmál og varpa fram fyrirspurnum í von um að skapa ráðherrum vandræði í stað þess að kafa ofan í mál, rökræða þau og skýra.

Þingmennirnir sem Kolbrún víkur að í orðum sínum hér að ofan vildu „stimpla sig inn“ sem áhrifavalda í þingsalnum í fyrri viku þegar þeir stofnuðu til málþófs og fluttu nokkur hundruð ræður um aflandskrónur án þess að það skilaði neinu. Miðflokksmenn skipa nú stærsta stjórnarandstöðuflokkinn á þingi en minna á að hæst bylur í tómri tunnu.