17.1.2026 12:01

Traust og friður um stjórnina

Margt vegna brotthvarfs Guðbrands minnir á afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur sem menntamálaráðherra og brotthvarf hennar af þingi til að ríkti „algjört traust og friður“ um störf ríkisstjórnarinnar. 

Eitt það fyrsta sem vinstrimenn gerðu eftir að þeir náðu völdum með minnihlutastjórn og stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009 var að lögfesta ákvæði um refsinæmi þess að kaupa vændi „þannig að hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári,“ eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Frumvarpið var samið að fyrirmynd sænskra jafnaðarmanna.

1115593Guðbrandur Einarsson (mynd: mbl.is).

Nú hefur einn þingmaður, Guðbrandur Einarsson, Viðreisn, sagt af sér þingmennsku vegna þessa ákvæðis í almennum hegningarlögum.

Á vefsíðunni Vísi sagði föstudaginn 16. janúar að Guðbrandur hefði sagt af sér þingmennsku þegar honum var tjáð fimmtudaginn 15. janúar að frétt um mál hans myndi birtast föstudaginn 16. janúar. Ræddi hann málið við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar síðdegis 15. janúar.

Guðbrandur sendi síðan frá sér yfirlýsingu sem birtist á Vísi snemma morguns föstudaginn 16. janúar þar sem sagði að árið 2012 hefði hann haft „samband við konu með vændiskaup í huga“. Í framhaldi af því hefði hann verið „boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu“. Hann hefði neitað allri sök vegna þess að sér hefði snúist hugur þegar á staðinn var komið.

Sagðist hann hafa gerst sekur um „stór mistök“ sem hann harmaði mjög. Í lok yfirlýsingarinnar segir:

„Um mikilvæg störf ríkisstjórnarinnar verður að ríkja algjört traust og friður og á það líka við um þingmenn hennar. Ég hef því ákveðið að segja af mér þingmennsku samstundis og hef látið forystu flokksins vita af því.“

Fram hefur komið að Guðbrandur hafi skýrt félögum sínum í þingflokki Viðreisnar frá þessu að kvöldi fimmtudagsins 15. janúar.

Í Morgunblaðinu í dag (17. janúar) segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar að þetta sé „mjög erfitt mál og mikil vonbrigði“. Guðbrandur hafi hins vegar „strax axlað sína ábyrgð, tekið erfiða ákvörðun“ sem flokksformaðurinn telur rétta. Guðbrandur gerir „það sem hann getur til þess að axla strax sína ábyrgð og það er bæði skynsamlegt og rétt“ að mati flokksformannsins.

Í blaðinu er þetta haft eftir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra: „Þetta er alvarlegt mál. Ég þekki það auðvitað ekki í smáatriðum frekar en flestir aðrir. En þetta er ákvörðun þingmannsins, að segja af sér, og með því axlar hann ábyrgð.“

Margt vegna brotthvarfs Guðbrands minnir á afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur sem menntamálaráðherra og brotthvarf hennar af þingi til að ríkti „algjört traust og friður“ um störf ríkisstjórnarinnar. Afsögn hennar kom eftir langan fund með forystukonum ríkisstjórnarinnar sem lýstu allar miklum skilningi á að hún hefði „axlað ábyrgð“.

Ásthildur Lóa er nú sest á þing að nýju og er orðin þingflokksformaður Flokks fólksins og Inga Sæland býr til þá sögu að hún hafi verið hrakin úr ráðherraembætti vegna óvæginnar umræðu um mál hennar.