12.8.2022 12:17

Tölvuþrjótar hrella Fréttablaðið

Umferð á eldvegginn hjá Fréttablaðinu tólffaldaðist miðað við venjulega umferð milli klukkan 8 og 9 að morgni og greip hýsingaraðili til sérstakra öryggisráðstafana.

Rússneska sendiráðið á Íslandi krafði Fréttablaðið miðvikudaginn 10. ágúst um afsökunarbeiðni eftir að blaðið birti fréttaljósmynd með viðtali við Val Gunnarsson blaðamann í Kænugarði þar sem maður sést stíga á rússneska fánann.

Á vefsíðu Fréttablaðsins 11. ágúst sagði að Ivan Gliskin upplýsingafulltrúi rússneska sendiráði á Íslandi neitaði því að vita nokkuð um netárás sem gerð hefði verið á vef Fréttablaðsins, frettabladid.is, að morgni 11. ágúst. Umferð á eldvegginn hjá Fréttablaðinu tólffaldaðist miðað við venjulega umferð milli klukkan 8 og 9 að morgni og greip hýsingaraðili til sérstakra öryggisráðstafana.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði ítrekað að Fréttablaðið myndi ekki biðjast afsökunar á myndbirtingunni þar sem um fréttamynd væri að ræða.

Fréttablaðið kærði netárásina til lögreglu og óskaði eftir því að hún aðstoðaði við að upplýsa hver eða hverjir stæðu að hótuninni og netárásinni.

Á vefsíðunni frettabladid.is sagði 11. ágúst að Gliskin upplýsingafulltrúi segði þetta mjög alvarlegt mál sem hefði „vakið mikil viðbrögð meðal rússnesks almennings“.

Hann sagði að hver sem er gæti hafa staðið að tölvuárásinni en sendiráðið hefði ekkert haft með hana að gera. „Mér finnst þetta ekki hörð viðbrögð í málinu,“ sagði Gliskin spurður um tölvuárás á frjálsan fjölmiðl á Íslandi.

831011

Rússneska sendiráðið mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Svo virtist af fréttum fimmtudaginn 11. ágúst sem stjórnendur Fréttablaðsins teldu líklegt að frekari tölvuárásir yrðu gerðar á miðla blaðsins eða tengda því þann sama dag.

Engar frekari fréttir bárust um það og í Fréttablaðinu föstudaginn 12. ágúst birtist aðeins eindálka frétt á innsíðu um atvikið. Þar er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að það komi henni nokkuð á óvart hve „hörundsárir fulltrúar rússneskra stjórnvalda“ séu gagnvart þessari myndbirtingu. Sjálf hvetji hún til þess að þjóðfánum sé sýnd virðing en hún telji hins vegar meiri vanvirðingu við rússneska fánann felast „í þeim hryllilegu og ómanneskjulegu glæpum“ sem framdir séu vísvitandi af stjórnvöldum Rússlands um þessar mundir „í nafni þjóðarinnar og undir þessum sama fána“.

Þótt Fréttablaðið geri lítið með þetta atvik í dag hlýtur það að segja lesendum sínum frá afdrifum kæru blaðsins til lögreglunnar. Tölvuþrjótar eru að vísu vandfundnir og leyna slóð sinni. Á hinn bóginn liggja fyrir svo margar upplýsingar um slóðirnar sem liggja til rússneskra tölvuþrjóta að ástæðulaust er að draga í efa að sendiráðið við Túngötu hafi kallað þá sér til aðstoðar við að hræða ritstjórn Fréttablaðsins og friða rússneskan almenning vegna fréttar blaðsins.

Það var fleira sem lagðist illa í rússneska sendiráðsmenn miðvikudaginn 10. ágúst því að andspænis sendiráðinu var þann dag sett nafnið Kænugarður á torg á mótum Garðastrætis og Túngötu í Reykjavík til að lýsa samstöðu með Úkraínumönnum gegn Rússum.