Tíu þúsund gönguskref víkja
Til þessa hefur oft verið litið á 10.000 skref sem viðmiðunarmark. Vonir eru bundnar við að nýtt og lægra vísindalegt viðmið hvetji fleiri en áður til að fá sér heilsubótargöngu.
Niðurstöður liggja fyrir í viðamikilli rannsókn á áhrifum göngu á heilsu manna. Vísindamenn vona að þær geti orðið framtíðarviðmið í lýðheilsu. Rannsóknin sýnir að það nægi að ganga 7.000 skref á dag til að efla heilastarfsemi og skapa vörn gegn ýmsum sjúkdómum.
Til þessa hefur oft verið litið á 10.000 skref sem viðmiðunarmark. Vonir eru bundnar við að nýtt og lægra vísindalegt viðmið hvetji fleiri en áður til að fá sér heilsubótargöngu.
Rannsóknin birtist fyrir skömmu í The Lancet Public Health. Vísindamennirnir segja að niðurstöðurnar ættu að hvetja fleiri til að líta á daglegan skrefafjölda sinn sem raunhæfa leið til að bæta heilsu sína.
„Við höfum miðað við ráðleggingar um að við ættum að ganga 10.000 skref á dag,“ segir aðalhöfundur skýrslunnar, Dr. Melody Ding, „það eru ekki nein vísindaleg gögn að baki þeim“
Tíu þúsund skref jafngilda um það bil átta kílómetrum. Nákvæm vegalengd fer þó eftir lengd skrefs, sem ræðst af hæð, kyni og gönguhraða en þeir sem ganga hratt taka yfirleitt lengri skref en þeir sem eru hægfara.
Kenninguna um 10.000 skrefin má rekja til markaðsherferðar í Japan. Fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 1964 var kynntur japanskur skrefamælir, manpo-kei eða 10.000 skrefa mælirinn.
Dr. Ding segir að þessi tala hafi fengið sjálfstætt líf og orðið að óopinberu viðmiði sem margir skrefamælar og smáforrit noti enn þann dag í dag.
Í Lancet-rannsókninni voru greind gögn og eldri rannsóknir á heilsu og hreyfingu yfir 160.000 fullorðinna víðs vegar að úr heiminum.
Í samanburði við þá sem gengu aðeins 2.000 skref sýndi hún að 7.000 skref stuðluðu að:
- 25% minni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum
- 6% minni hættu á krabbameini
- 38% minni hættu á elliglöpum
- 22% minni hættu á þunglyndi.
Vísindamennirnir segja að sum töluleg gildi geti verið ónákvæm þar sem þau séu reist á fáum rannsóknum. Almennt gefa niðurstöðurnar til kynna að jafnvel hófleg hreyfing, um 4.000 skref á dag, stuðli að betri heilsu en mjög lítil hreyfing (2.000 skref á dag).
Á það er bent í fréttum um þessa rannsókn að fjöldi skrefa á dag sé ekki neitt algilt viðmið um áhrif hreyfingar á heilsu. Skrefamælar, t.d. í farsímum, hafi hins vegar aukið vinsældir þessa viðmiðs.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir til dæmis að fullorðnir ættu að stunda að minnsta kosti 150 mínútur af miðlungs ákafri hreyfingu eða 75 mínútur af ákafri hreyfingu á viku.
Dr. Ding segir að þessi ráðlegging sé oft óskýr, hún hafi þó engu að síður mikilvægt gildi. Fólk hjóli eða syndi og svo framvegis, allt miðað við líkamlega getu.
Almenna reglan er að allt sé betra en ekkert og aldur hindri engan í að auka þrek sitt hafi hann á annað borð burði til þess.
Í lýðheilsuráðleggingum landlæknis fyrir eldra fólk segir: Í hverri viku ætti að hreyfa sig rösklega í minnst 150 mínútur. Minnst 2-3 daga vikunnar ætti að stunda hreyfingu sem styrkir vöðva, bætir jafnvægi og eykur hreyfigetu