9.8.2021 10:10

Títuprjónamenn í Efstaleiti

Ráðist það af duttlungum fréttamanna hvort þeir fari að ábendingu útvarpsstjóra um „nýlensku“ er ekki líklegt að þeir fari að ábendingu Hannesar Hólmsteins.

Baldur Hafstað skrifar í dálkinn Tungutak í Morgunblaðinu laugardaginn 7. ágúst um það sem hann kallar títuprjónana á RÚV. Þar er meðal annars að finna þennan texta:

Nemandi 4 : En það er ekkert samræmi í þessu hjá þeim á RÚV. Í kvöldfréttum þann 25. júlí heyrði ég til dæmis þessa mixtúru : „Fleiri eru nú smituð og einkennalaus “ En strax á eftir: „ að fleiri séu ógreindir og einkennalausir.“

Kennarinn : Og næst verður svo sagt: „ Ekkert greindist smitað í gær“. – Nei, krakkar mínir, ég var að grínast! Auðvitað er ég sammála ykkur. Nýlenskan er mál sértrúarhóps á villigötum eins og allir okkar virtustu málfræðingar (konur og karlar) hafa nú sýnt fram á. Útvarpsstjóri hefur sem betur fer fundið fyrir mótmælaholskeflu þúsunda útvarpshlustenda og virðist nú loksins vera búinn að ná til flestra fréttamanna sinna. Enn eru þó títuprjónamenn í hópnum, tilbúnir að stinga okkur í eyrun.“

Í tilvitnuðu orðunum hér að ofan segir Baldur að svo virðist sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hafi tekið af skarið og beitt sér gegn „nýlenskunni“ hann hafi þó ekki náð til allra „fréttamanna sinna“, enn séu þar „títuprjónamenn“ sem stingi hlustendur í eyrun.

Ástæða er til að staldra við þessa lýsingu því að í henni felst ábending um að svo sé innan ríkisútvarpsins að þar fari einstakir fréttamenn sínu fram hvað svo sem líður ákvörðun eða tilmælum útvarpsstjóra, starfsemin lúti ekki neinni samræmdri stjórn að þessu leyti.

Rás 1 auglýsir sig gjarnan á þann hátt að hún sé „fyrir forvitna“. Þar er einna forvitnilegast að vita hvenær þáttur sem fluttur er hafi fyrst verið sendur út, hvort það hafi verið á þessari öld eða þeirri tuttugustu. Þá ræðst það einnig af því hver er þulur hvort til uppfyllingar á dauðum tíma í dagskránni, sem er drjúgur á hverjum degi, sé fluttur djass eða annars konar tónlist. Tónlistar-forvitni þular ræður greinilega hvað flutt er til uppfyllingar.

Microphone-radio-studio-background-microphone-radio-studio-130717963Hér var á laugardaginn birtur Fróðleiksmoli eftir Hannes Hólmstein Gissurarson sem sýndi að samsæriskenning sem fréttastofa ríkisútvarpsins hampaði fyrir 10 árum er röng. Hannes var spurður á Facebook hvort fréttastofan hefði sagt frá nýjum upplýsingum um málið. Hann svaraði:

„Nei, ég hafði samband við RÚV og minnti á fréttaflutninginn árið 2011 og kvaðst reiðubúinn að fara yfir málið í ljósi nýrra upplýsinga. Þeir ætluðu að skoða málið, en ég heyrði ekkert meira frá þeim.“

Þá kom athugasemd frá Erlendi Magnússyni sem sagði:

„Fréttastofa RÚV er þekkt fyrir að hafa aldrei rangt fyrir sér - ekki heldur þegar hún hefur haft rangt fyrir sér.“

Ráðist það af duttlungum fréttamanna hvort þeir fari að ábendingu útvarpsstjóra um „nýlensku“ er ekki líklegt að þeir fari að ábendingu Hannesar Hólmsteins um að hafa það sem sannara reynist.

Allt er þetta sérkennilegt um stofnun sem kostar skattgreiðendur tæpa sex milljarða á ári.