23.6.2021 9:28

Tímaskekkja hjá Samfylkingu

þingkosningunum 2013 hlutu stjórnarflokkarnir, Samfylking og VG, hroðalega útreið. VG áttaði sig á að ekki yrði haldið áfram á sömu braut. Samfylkingin spólar enn í sama farinu.

Á alþingi á liðnum vetri sannaðist að Píratar ráða stefnu Samfylkingarinnar í stjórnarskrármálinu. Fulltrúar flokkanna tóku fyrri hluta kjörtímabilsins þátt í fundum undir forystu forsætisráðherra í viðleitni hennar til að skapa víðtæka sátt í stjórnarskrármálinu á forsendum sem öllum þátttakendum voru kunnar.

Ef þingflokkar Pírata og Samfylkingar hefðu við upphaf samráðs allra flokka sagt að þeir vildu ekki annað en „nýju stjórnarskrána“ hefði aldrei verið stofnað til allra-flokka-nefndar um málið. Það hefði ekki þjónað neinum tilgangi. Síðan þegar flokkarnir sýndu rétt andlit sitt á lokaþingi kjörtímabilsins varð ljóst að lengra yrði ekki haldið og forsætisráðherra ákvað að kynna það sem fyrir lá í stjórnarskrármálinu í lok kjörtímabilsins með frumvarpi sem hún flutti þótt augljóst væri að það næði ekki fram að ganga.

6BAAB0F590A9CA83113B36553456C30312CD5686291646A9F7202DF07E84FD8C_713x0

Síðan gerðist það í stjórnarskrármálinu fyrir nokkrum vikum að Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur birti í Tímariti lögfræðinga fræðilega grein um sögu málsins frá 1. febrúar 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hóf „nýja stjórnarskrárferlið“. Þessi ritgerð ætti að sýna öllum að það leiðir menn ekki annað en í ógöngur að halda þessu ferli áfram. Í 10 ár hafa talsmenn „nýju stjórnarskrárinnar“ á hinn bóginn látið eins og þjóðin hafi skuldbundið sig og kjörna fulltrúa sína til að láta eitthvert óskilgreint plagg sem margsinnis hefur verið afskrifað ráða för sinni.

Blekkingariðjan í þágu „nýju stjórnarskrárinnar“ heldur áfram án tillits til allra staðreynda eins og sést í grein þingmanns Samfylkingarinnar, Helgu Völu Helgadóttur, í Morgunblaðinu í dag (23. júní). Þar segir: „[H]efði áhugi verið fyrir hendi hjá forsætisráðherra hefði verið hægðarleikur að klára [stjórnarskrár]málið. Heimsfaraldri verður ekki kennt um þessi vinnubrögð.“

Innstæðulausar yfirlýsingar af þessu tagi eiga líklega að ganga í augun á einhverjum fyrir komandi kosningar. Fyrir þá sem þekkja til málsins eru þær hins vegar ekki annað en framhald á blekkingarferlinu. Eftir að þingmenn Samfylkingarinnar elta Pírata út úr nefnd forsætisráðherra láta þeir eins og það sé forsætisráðherranum að kenna að ekki náðist nauðsynleg samstaða í stjórnarskrármálinu!

Eins og áður sagði hóf Jóhanna Sigurðardóttir stjórnarskrárferlið árið 2009 sama ár hófst ESB-aðildarferlið einnig undir forystu ríkisstjórnar hennar. Sumarið 2011 skilaði stjórnlagaráð alþingi tillögum sínum og þar með varð draumur Jóhönnu um nýja stjórnarskrá í raun að engu. Sama ár, 2011, varð ESB-aðildardraumurinn einnig að engu, þá varð ljóst að ESB gæfi aldrei eftir í sjávarútvegsmálum og þar með yrði ekki samið um aðild Íslands.

Í þingkosningunum 2013 hlutu stjórnarflokkarnir, Samfylking og VG, hroðalega útreið. VG áttaði sig á að ekki yrði haldið áfram á sömu braut. Samfylkingin spólar enn í sama farinu. „Nýja stjórnarskráin“ er samstarfssáttmáli Samfylkingar og Pírata, hún er án innihalds og fellur því að stefnum flokkanna. Þar sem Katrín Jakobsdóttir heldur sig og flokk sinn frá Samfylkingu og Pírötum er sótt að henni ómaklega á þann veg sem Helga Vala Helgadóttir gerir, að flagga stjórnarskrármálinu í því skyni er dæmigert fyrir tímaskekkju Samfylkingarinnar.