16.10.2018 10:17

Tilvísanir í bók og kvikmynd vegna æfinga

Handhægt er að nota sögu Clancys sem tilvísun vegna þess að hún var mikið lesin á sínum tíma og birtist árið 1986 og hefur lifað síðan.

Í dag klukkan 17.00 flytur bandaríski aðmírállinn James G. Foggo, yfirmaður flotatstjórnar NATO í Evrópu, fyrirlestur á vegum Varðbergs í Norræna húsinu. Aðmírállinn er æðsti stjórnandi varnaræfingarinnar miklu, Trident Juncture 2018, sem hefst í Noregi í næstu viku en undanfari hennar verður hér næstu daga.

Í frétt ríkisútvarpsins í morgun (16. október) sagði:

„Fobert B. Neller, liðsforingi í bandaríska sjóhernum, var spurður út í samanburðinn við bók [Toms] Clancys [Rauður stormur ­– Red Storm Rising] á blaðamannafundi í síðustu viku. Hann sagðist ekki vilja láta draga sig út í slíkar vangaveltur.

Marine Corps Times greinir frá því að Phillip Petersen, sem sérhæfir sig í aðgerðum rússneska, og áður sovéska, hersins, hafi lagt fram skýrslu til bandaríska varnarmálaráðuneytisins árið 2014 um það hvernig Rússar gætu ráðist á ríki Skandinavíu og nyrsta hluta Evrópu, og hvernig Atlantshafsbandalagið gæti varist slíkri árás. Í skýrslunni greinir Petersen frá því að Rússar gætu laðast að Íslandi vegna stöðu landsins, og þeir gætu jafnvel látið verða af því að ráðast inn og hertaka landið. Þannig myndu þeir búa sér til stórt umráðasvæði í Atlantshafi fyrir sjó- og kafbátaher sinn.“

Í bók Clancys er sovésk árás á Keflavíkurstöðina kveikjan að allsherjarátökum. Í æfingunni sem tengist Keflavíkurflugvelli nú eru gerðar ráðstafanir til að verja öryggissvæðið sem lýtur stjórn Landhelgisgæslu Íslands þar.

Images_1539685019670Handhægt er að nota sögu Clancys sem tilvísun vegna þess að hún var mikið lesin á sínum tíma og birtist árið 1986 þegar umræður um öryggi á Norður-Atlantshafi og Noregshafi voru miklar vegna breytinga á flotastefnu Bandaríkjanna. Albert Jónsson, fyrrv. sendiherra, minnist þess tíma í pistli á vefsíðu sinni sem lesa má hér .

Albert rifjar einnig upp að Clint Eastwood notaði ströndina í Sandvík skammt frá Höfnum á Reykjanesi sem „leiksvið“ þegar hann tók upp atriði í myndinni Flags of our Fathers  sumarið 2006 en hún sýnir innrás Bandaríkjamanna í Japan.

Eins og vitað er sækja ferðamenn gjarnan á staði sem notaðir eru sem svið í kvikmyndum. Bandarískum landgönguliðum samtímans finnst vafalaust nokkuð til þess koma að ganga á land á Íslandi þar sem Clint Eastwood gerði mynd sína.