15.9.2025 12:29

„Tiltekt“ Jóhanns Páls og Sigurjón

Svarið kallar á spurningu um hvort ráðherrann sé andvígur þeirri skipan loftslagsmála sem alþingi samþykkti í mars 2020. Er hann sammála Sigurjóni en situr nauðugur uppi með orðinn hlut?

Þingmaður Flokks fólksins, Sigurjón Þórðarson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, þungavigtarmaður í eigin flokki og meðal þingmanna að baki ríkisstjórninni, sagði á Facebook laugardaginn 13. september:

„Ísland ætti að segja sig frá samkomulagi sem felur í sér að greiða milljarða kr. úr landi til landa sem eru komin mun skemur á braut orkuskipta en Ísland. Það var fáránlegt að núllstilla þann árangur sem þegar hafði náðst í nýtingu grænna orkugjafa þegar skrifað var undir loftslagssamninginn.“

Hér vísar Sigurjón til kynningar Jóhanns Páls Jóhannssonar, orku- og loftslagsráðherra, á áherslum og forgangsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum 12. sept.

Í anda „tiltektar“ ríkisstjórnarinnar skuldinni er skellt á aðra gaf Jóhann Páll í skyn að Íslendingar gætu þurft að kaupa kolefnislosunarheimildir fyrir a.m.k. 11 milljarða króna til að geta staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum þar sem ekki hefði tekist að standa við markmið um losun á síðustu árum.

JPJ-kynningJóhann Páll Jóhannsson kynnir loftslagsmarmið 12. september 2025 (mynd vefsíða stjórnarráðsins).

Hann kynnti þetta sem sagt 12. september 2025 þótt nákvæm upphæð sem ríkið kynni að þurfa að greiða vegna losunarheimilda myndi í fyrsta lagi liggja fyrir árið 2028. Óljóst væri hvaðan heimildirnar yrðu keyptar en líklegast yrði það „í gegnum aðrar þjóðir eða innan þess kerfis þar sem skuldbindingin liggur,“ segir í frétt Morgunblaðsins af blaðamannafundinum.

Fréttin vakti áhuga og mótmæli Sigurjóns Þórðarsonar sem krafðist slita á fyrirkomulagi sem alþingi samþykkti samhljóða í mars 2020, nema Sigurjón hafi átt við Parísarsamninginn frá 2015.

Þegar hann var gerður höfðu íslensk stjórnvöld afsalað sér fyrirvaranum sem settur var við Kýótó-bókunina 1997 og ákveðið að mati samninganefndar Íslands í loftslagsmálum að hagsmunum Íslands væri best borgið með því að vera í samfloti með 28 aðildarríkjum ESB í sameiginlegu markmiði á síðara tímabili Kýótó-bókunarinnar.

Þegar farið var að huga að innleiðingu Parísarsamningsins árið 2015 komst samninganefndin í loftslagsmálum að þeirri niðurstöðu að rökrétt væri að Ísland myndi halda áfram að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja til að forðast misræmi í bókhaldi og markmiðum samkvæmt EES-reglum annars vegar og alþjóðasamningum hins vegar. Noregur komst einnig að sömu niðurstöðu.

Jóhann Páll bregst við í anda „tiltektarinnar“ í Morgunblaðinu í dag (15. september) þegar hann í svari við gagnrýni stjórnarþingmannsins Sigurjóns Þórðarsonar segir: „En það er mikilvægt að hafa í huga að mögulegar fjárhagslegar skuldbindingar eru ekki ákvörðun þessarar ríkisstjórnar einnar heldur afleiðing samkomulagsins sem gert var árið 2020 um að fella losunarmarkmið inn í EES-samninginn.“

Svarið kallar á spurningu um hvort ráðherrann sé andvígur þeirri skipan loftslagsmála sem alþingi samþykkti í mars 2020. Er hann sammála Sigurjóni en situr nauðugur uppi með orðinn hlut?

Rétt er að hafa í huga að flokkur Jóhanns Páls vill aðild Íslands að ESB og þar með öllum loftslagsmarkmiðum sambandsins.