6.5.2017 10:24

Tilboð frá Le Monde

Árum saman var ég áskrifandi að franska dagblaðinu Le Monde. Fékk það sent í pósti á sínum tíma og síðan á netinu þar til ég sagði því upp fyrir nokkru.

Árum saman var ég áskrifandi að franska dagblaðinu Le Monde. Fékk það sent í pósti á sínum tíma og síðan á netinu þar til ég sagði því upp fyrir nokkru vegna þess að ég notaði það ekki eins mikið og áður, fréttalindunum hafði fjölgað og mið-vinstri viðhorfin í blaðinu urðu óspennandi.

Ég er þó áfram á póstlista fyrir helstu fréttir einu sinni á dag. Nú daginn fyrir síðari umferð frönsku forsetakosninganna fæ ég dreifibréf frá Jérôme Fenoglio, directeur du Monde. Hann segir að niðurstaða kosninganna á morgun leiði til uppstokkunar í frönskum stjórnmálum. Mikil óvissa muni ríkja fram að þingkosningunum í júní. Sjaldan hafi verið jafnmikið í húfi fyrir Frakka og Evrópumenn að gera sér grein fyrir straumum og stefnum í frönskum stjórnmálum.

Í bréfinu segir að þeir á Le Monde séu sannfærðari um það en nokkru sinni að framlag blaðamanna skipti miklu fyrir almennar umræður. Þeir rannsaki mál, bregði ljósi á heildarmyndina, skýri og skilgreini framvindu mála. Þetta sé hlutverk 400 blaðamanna á Le Monde í Frakklandi og erlendis. Þeir séu sérlegir sendimenn lesenda blaðsins, blaðið veiti mikils metnum mennta- og menningarmönnum tækifæri til að lýsa skoðunum sínum, í blaðinu fái lesendur tækifæri til að fljúga hærra en í boði sé með „low cost“ (þarna sletta þeir ensku) fjölmiðlun.

Þá er boðað að við nýjar aðstæður í frönskum stjórnmálum ætli blaðið að miðla bestu upplýsingum um nýja þátttakendur í stjórnmálum sem taki við ráðherraembættum eða setjist á þing.

Síðan er mér boðið að gerast að nýju félagi í áskrifendahópi Le Monde til að njóta til fulls hágæða fjölmiðlunar. Tilboðið sé einstakt: 100% netáskrift í þrjá mánuð fyrir aðeins 1 evru.

Le Monde er metnaðarfullt gæðablað sem vafalaust stendur nærri þeim sem styðja Emmanuel Macron, verðandi Frakklandsforseta. Tilboð blaðsins í tilefni kosninganna er enn eitt dæmið um breytingu á eðli fjölmiðlunar þar sem áherslan á alhliða netmiðlun eykst jafnt og þétt og leitast er við að veiða markhópa með gylliboðum í von um að festa einhverja á önglinum. Hann fer fram hjá mér að þessu sinni.