29.5.2022 11:24

Til stuðnings Belrússum

Íslensk stjórnvöld ættu að sýna lýðræðishreyfingu Belrússa virðingu og siðferðilegan stuðning með því að kalla land þeirra Belarús en ekki Hvíta-Rússland.

Á vefsíðu Árnastofnunar er birtur listi yfir ríkjaheiti. Þar stendur feitletrað Hvíta-Rússland og þar fyrir neðan Belarús. Þá segir að formlegt heiti landsins sé: Lýðveldið Belarús. Íbúaheitið sé Hvít-Rússi, hvítrússneskur, tungumálið sé hvítrússneska, belrússneska, rus.

Hér er í fréttum almennt talað um Hvíta-Rússland og það heiti er einnig notað af utanríkisráðuneytinu, á vefsíðu þess stendur að vísu Hvíta-Rússland (Belarús) eða Belarús (Hvíta-Rússland). Má ráða af því að notuð séu tvö heiti á landinu.

Vilji utanríkisráðuneytið vera í takt við það sem gerist á Norðurlöndunum verður heitinu Hvíta-Rússland vikið til hliðar. Norska utanríkisráðuneytið hefur nú fetað í fótspor ráðuneytanna í Svíþjóð og Danmörku og ákveðið að framvegis verði Hvíta-Rússland nefnt Belarús.

Photo_2022-05-20_10.22.32Af þessu tilefni birti norska ráðuneytið fréttatilkynningu þar sem Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, segir: „Við teljum rétt að breyta heitanotkuninni og sýna þannig samstöðu með hvítrússnesku (svo!) lýðræðishreyfingunni.“

Forsætisráðherrann hitti Svatlönu Tsikhanovskaju, leiðtoga lýðræðishreyfingarinnar, sem hvatti til þess að norsk stjórnvöld notuðu heitið Belarús.

Norðmenn tilkynntu ákvörðun sína í dag, sunnudaginn 29. maí, á alþjóðlegum samstöðudegi með Belarús.

Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, fagnaði að geta sýnt lýðræðisöflunum í Belarús samstöðu á þennan táknræna hátt og hringdi hún í Svatlönu Tsikhanovskaju til að segja henni frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Fyrir tveimur árum, 29. maí 2020, var Sergeij, eiginmaður Svatlönu, handtekinn vegna baráttu hans fyrir borgararéttindum í Belarús. Hann ætlaði í framboð gegn Alexander Lukasjenko, forseta og einræðisherra, í kosningunum 9. ágúst 2020. Eftir handtökuna gaf Svatlana kost á sér og fékk svo mikið fylgi að Lukasjenko taldi sér ógnað. Hún flúði til Litháens en Lukasjenko herti enn einræðistökin og flúði í faðm Pútins. Þeir standa saman í stríðinu gegn Úkraínu. Rússneski herinn notar Belarús til árása á Úkraínumenn með sérstöku leyfi Lukasjenkos. Hafa að minnsta kosti 700 skotflaugar verið sendar frá Belarús á skotmörk í Úkraínu frá því að innrásin var gerð 24. febrúar 2022.

Harðstjórn Lukasjenkos snýr að borgurum Belarús sem efndu til fjöldamótmæla eftir kosningasvindlið 9. ágúst 2020. Mannréttindi eru að engu höfð, fjöldi fólks hefur verið sviptur frelsi, pyntingar eru stundaðar til að knýja fram opinberar játningar í anda Stalíns. Flugher landsins var beitt í maí 2021 til að knýja farþegavél á leið frá Aþenu til Vilníus í Litháen til að lenda í Belarús svo að Lukasjenko gæti haft hendur í hári belrússneska blaðamannsins Romans Protasevitsj og bundið enda á gagnrýni hans.

Belrússar utan Belarús eiga reiði einræðisherrans yfir höfði. Útsendarar Lukasjenkos ofsækja gagnrýnendur hans hvar sem þeir ná til þeirra.

Íslensk stjórnvöld ættu að sýna lýðræðishreyfingu Belrússa virðingu og siðferðilegan stuðning með því að kalla land þeirra Belarús en ekki Hvíta-Rússland. Það verður gert framvegis á þessari vefsíðu.