24.9.2023 7:35

Thyssen-safnið í Madrid

Í Madrid er listasafn kennt við Thyssen-Bornemisza (Museo Thyssen-Bornemisza). Þar eru um það bil 900 verk til sýnis frá 13. öld fram á okkar daga.

Skammt frá Prado-safninu heimsfræga í Madrid er listasafn kennt við Thyssen-Bornemisza (Museo Thyssen-Bornemisza). Þar eru um það bil 900 verk til sýnis frá 13. öld fram á okkar daga. Iðnjöfrarnir Barón Heinrich Thyssen-Bornemisza og sonur hans Barón Hans Heinrich Thyssen-Bornemisza lögðu grunn að safninu með listaverkakaupum sínum og voru þau til sýnis á aðsetri fjölskyldunnar í Lúganó í Sviss. Þegar baróninum var neitað um leyfi fyrir stærra sýningarrými í Lúganó hóf hann árið 1987 að leita að betri stað fyrir verkin annars staðar í Evrópu.

Spænsk eiginkona hans og fyrrverandi ungfrú Spánn, Carmen „Tita“ Cervera hvatti hann til að flytja verk sín til Madrid þar sem heimamenn buðust til að hýsa þau skammt frá Prado-safninu.

Listaverkunum var búið athvarf í Palacio de Villahermosa, nýklassískri höll frá síðari hluta 18. aldar. Höllin var endurnýjuð og löguð að þessu hlutverki sínu og safnið var opnað almenningi árið 1992. Ári síðar keypti spænska ríkið 775 verk úr safninu fyrir 350 milljón dollara.-

Spænsku arkitektarnir Rafael Moneo og Manuel de las Casas unnu samkeppni um breytingar á Villahermosa-höllinni og árið 2004 eignaðist safnið tvö nærliggjandi hús. Anddyrið er glæsilegt og ýmis sameiginleg rými. Vandratað getur verið úr sýningarsölum á efri hæðum þess.

Carmen Thyssen-Bornemisza lánaði safninu verk í sinni eigu árið 2002 og í fyrra var leigusamningurinn endurnýjaður til 15 ára og er leigugjaldið samtals 97,5 milljón ervur fyrir 330 verk sem metin eru á meira en 1,7 miljarð evra.

Á þessum 15 árum má leigusalinn hvenær sem hann kýs selja þrjú verk úr safninu en þó ekki verkið Mata Mua eftir Paul Gauguin en mynd af því er hér fyrir neðan ásamt málverki sem vinur hans Vincent van Gogh gerði á dánarári sínu.

Ásamt Prado-safninu og Sofíu-safninu myndar Thyssen-safnið magnaðan þríhyrning stórbrotinna listasafna á litlu svæði í Madrid.

IMG_8346

Stéttin fyrir framan innganginn í Thyssen-safnið.

IMG_8310IMG_8312Tvö málverk eftir Paul Gauguin (1848-1903). Efri myndin er frá 1888 og heitir: Hundar hlaupa í grasi og neðri myndin er frá 1892 og heitir Mata Mua (Í gamla daga) en þá var hann kominn til Frönsku-Polynesíu þar sem hann andaðist. Litið er á Mata Mua sem eina dýrmætustu eign safnsins.

IMG_8339Vincent van Gogh (1853-1890), vinur Gauguins, málaði þetta verk árið sem hann dó, Les Vessenots í Auvers.

IMG_8315

Auguste Rodin (1840-1917), Draumur (Koss engilsins)