Þýski sjóherinn á N-Atlantshafi
Þessi sókn Þjóðverja út á Norður-Atlantshaf er einsdæmi á friðartímum og sýnir enn og aftur hve mikil áhersla er á alhliða fælingarmátt gagnvart Rússum.
Boris Pistorius varnarmálaráðherra Þýskalands og hópur þýskra þingmanna kom hingað til lands í gær, sunnudaginn 19. október, og heldur héðan til Kanada í dag.
Í tilkynningu þýska varnarmálaráðuneytisins segir að ferðin sé farin til samráðs við bandamenn um hvernig hægt sé að styrkja fælingar- og varnarmátt í sameiningu. Þar sé fyrst og fremst lögð áhersla á öryggi bandalagsins á Norður-Atlantshafi. Þá sé annar höfuðtilgangur funda ráðherrans að efla samstarf um vopnabúnað.
Ráðuneytið segir að Þjóðverjar eigi einkum samstarf við Íslendinga og Kanadamenn á æfingum NATO, við loftrýmisgæslu, gæslu öryggis á sjó og herþjálfun. Tekið er fram að Íslendingar haldi ekki úti eigin her. Þýski flugherinn taki þátt í loftrýmisgæslu og NATO-æfingum á Íslandi, svo sem Northern Viking. Ísland sé hernaðarlega mikilvægt fyrir sameiginlegar varnir á Norður-Atlantshafi.
Þá er farið orðum um náið og traust samstarf Þjóðverja við Kanadamenn á sviði öryggis- og varnarmála. Minnt er á að Kanadamenn hafi sent herlið til viðveru í Eystrasaltslöndunum ásamt liðsafla frá Þýskalandi og Bretlandi.
Kort þýska varnarmálaráðuneytisins 20. október 2025 til skýringar á ferð þýska varnarmálaráðherrans hingað til lands.
Í tilkynningunni er mikilvægi GIUK-hliðsins lýst og birt kortið sem hér fylgir því til skýringar. Varnir þar skipti höfuðmáli til að gera bandamönnum í Bandaríkjunum og Kanada kleift að tryggja birgðaflutninga og liðsauka ef til átaka kæmi í Evrópu. Með freigátum sínum og kafbátum, auk nýju P-8A Poseidon-eftirlitsflugvélanna sem verði brátt tiltækar, stuðli þýski sjóherinn að öryggi á Norður-Atlantshafi.
Íslenska utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu síðla dags 19. október þar sem sagði að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Boris Pistorius varnarmálaráðherra hefðu þann sama dag ritað undir tvíhliða viljayfirlýsingu um varnarmál í tengslum við heimsókn Pistoriusar til Íslands. Með yfirlýsingunni væri lagður grunnur að auknu samstarfi Íslands og Þýskalands sem efldi eftirlit og öryggi á Norður-Atlantshafi og sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins.
Fyrir ári (23. október 2024) ritaði Pistorius undir svonefndan Trinity-House samning við John Healey, varnarmálaráðherra Breta, sem felur meðal annars í sér að þýskar P-8A Poseidon-kafbátaleitarvélar hafi reglulega viðveru í bresku flugherstöðinni í Lossiemouth í Norður-Skotlandi til að efla sameiginlega viðveru og eftirlit á Norður-Atlantshafi.
Þjóðverjar hafa keypt átta P-8A-Boeing þotur og eiga fá fyrstu vélina afhenta um þessar mundir, haustið 2025. Náin tengsl eru milli Lossiemouth og Keflavíkurstöðvar NATO. Er ekki að efa að með komu sinni hingað og viljayfirlýsingunni skapi þýski varnarmálaráðherrann pólitískt svigrúm til að þessar þýsku flugvélar og áhafnir þeirra geti athafnað sig frá Íslandi.
Þessi sókn Þjóðverja út á Norður-Atlantshaf er einsdæmi á friðartímum og sýnir enn og aftur hve mikil áhersla er á alhliða fælingarmátt gagnvart Rússum. Ekkert sambærilegt gerðist í kalda stríðinu. Íslensk stjórnvöld verða að bregðast við með áþreifanlegum hætti og ekki láta við það eitt sitja að skrifa undir yfirlýsingar.
Tvíhliða yfirlýsingin við Þjóðverja sýnir á hinn bóginn svart á hvítu að óþarft er að ganga í ESB til þess að leggja rækt við hernaðarleg öryggistengsl við ríki sambandsins.