Þýski herinn og Ísland
Það er athyglisvert að af hálfu íslenskra stjórnvalda skuli engum áhuga lýst á að Íslendingar verði með skipulegum og metnaðarfullum hætti virkir þátttakendur í byltingunni sem er að verða í öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi.
Þýsk hermálayfirvöld hafa markvisst fært athafnasvið sitt út á Norður-Atlantshaf og í átt til norðurslóða undanfarin misseri. Má rekja þetta til stríðsins í Úkraínu, lokunar á gas frá Rússlandi, orkuviðskipta við Noreg (gas, olía og raforka) og flutnings á gasi frá Bandaríkjunum til meginlandshafna í Evrópu fyrir utan gamalgróin tengsl Bandaríkjanna og Þýskalands í öryggismálum.
Öllu þessu yrði ógnað næðu Rússar að koma ár sinni fyrir borð á Norður-Atlantshafi og gætu ógnað siglingaöryggi þar. Þá hefur gildi neðansjávarkapla í þágu orkuflutninga og fjarskipta stóraukist og draga þeir að sér skemmdarverkamenn. Hvarvetna í Evrópu er varað við vaxandi hættu á skemmdarverkum útsendara frá Rússlandi eða málaliða úr undirheimunum. Skuggafloti Rússa er nýttur í annarlegum tilgangi.
Þýski sjóherinn hefur stofnað til náins samstarfs við flotastjórnir Norðmanna og Breta. Þjóðverjar sömdu við Breta um afnot af flugherstöðinni í Lossiemouth í Skotlandi en P-8 Poseidon-þotur koma þaðan til eftirlitsflugs yfir Norður-Atlantshaf.
Í tengslum við NATO-toppfundinn í Haag 25. júní 2025 höfðu Þjóðverjar frumkvæði að undirritun fjórhliða samstarfssamnings um varnir norðurslóða og Norður-Atlantshafs við Dani, Kanadamenn og Norðmenn. Í samningnum felst meðal annars að þjóðirnar efni saman til æfinga á Norður-Atlantshafi og sameinist um vopnabúnað og kaup á honum.
Varavarnarmálaráðherra Þýskalands, Dr. Nils Schmid, var í Nuuk á Grænlandi 18. ágúst og sat fundi með utanríkisráðherra Grænlands og varnarmálaráðherra Danmerkur. Þýski ráðherrann varaði við hættunni af Rússum. Í fyrra hefði þýska ríkisstjórnin lagað norðurslóðastefnu sína að nýja veruleikanum. Í þágu öryggis Grænlendinga myndi þýski sjóherinn áfram senda kafbáta sína, freigátur og nýjar flugvélar til eftirlits á Norður-Atlantshafi til að styrkja ástandsmatið og sýna fælingarmátt.
Carsten Breuer, yfirhershöfðingi Þýskalands.
Í þessu ljósi ber að líta til þess að Carsten Breuer, yfirhershöfðingi þýska heraflans, sótti Ísland heim í vikunni og ræddi þriðjudaginn 26. ágúst við utanríkisráðherra og skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að heimsóknin hafi verið „þýðingarmikill liður í að efla tengsl og tvíhliða samstarf Íslands og Þýskalands á sviði varnarmála“. Hershöfðinginn kynnti sér m.a. aðstæður á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og Helguvíkurhöfn.
Vísir ræddi við Breuer sem sagði meðal annars: „Ástandið er hættulegt og ógn stafar af Rússlandi í Evrópu. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt á mínum fjörutíu árum sem hermaður. Ógnin er yfirvofandi, hún er fyrir hendi og við verðum að takast á við hana.“
Þetta eru þung orð og alvarleg.
Það er athyglisvert að af hálfu íslenskra stjórnvalda skuli engum áhuga lýst á að Íslendingar verði með skipulegum og metnaðarfullum hætti virkir þátttakendur í byltingunni sem er að verða í öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi. Hjáseta í því efni er hættuleg.