18.12.2021 10:48

Þýski herinn lítur til GIUK-hliðsins

Þýsk stjórnvöld stefna að því að verja milljörðum evra til að fjárfesta í eftirlitsflugvélum og kafbátum til að sinna verkefnum í GIUK-hliðinu.

Þýska alþjóða- og öryggismálastofnunin (SWP) birti í október 2021 skýrsluna: Russland in der Arktis. Entwicklungspläne, Militärpotential und Konfliktprävention eftir Michael Paul, Göran Swistek. Eins og heiti skýrslunnar segir eru þar birtar niðurstöður rannsókna á framgöngu Rússa á norðurslóðum (Arktis) og fjallað um þrónaráætlanir, hernaðarmátt og leiðir til að koma í veg fyrir átök.

90217Rússneski herinn efndi í þessari viku til mikillar æfingar í Rostov, skammt frá landamærum Úkraínu. Þar eru um 100.000 hermenn gráiri fyrir járnum. Þýskir sérfræðingar telja að spennan þarna teygi sig til norðurslóða.

Gildi skýrslunnar eykst vegna þess herafla sem Rússar hafa stefnt að landamærum Úkraínu og hættuástandsins sem þar ríkir.

Þýsku sérfræðingarnir sem sömdu fyrrgreinda skýrslu segja að spennan í samskiptunum við Rússa hafi áhrif á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi þar sem þýski herinn, Bundeswehr, auki nú viðbúnað og æfingar til dæmis á Norður-Atlantshafi. Sérstaklega verði að líta til þess að mikilvægi GIUK-hliðsins, hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland til Skotlands, fyrir öryggi Atlantshafssvæðisins og Evrópu sérstaklega aukist jafnt og þétt. Rifjuð er upp varðstaðan sem NATO-ríkin efldu jafnt og þétt í hliðinu í kalda stríðinu.

Við Íslendingar fórum ekki varhluta af eflingu varna af hálfu Bandaríkjanna og NATO á níunda áratug aldarinnar þegar stofnað var til mestu endurnýjunar og framkvæmda á Keflavíkurflugvelli frá því að bandaríska varnarliðið kom hingað 1951.

Í frásögn af skýrslu SWT á vefsíðunni German-foreign-policy.com er föstudaginn 17. desember vitnað til þess að James Stavridis, fyrrv. yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, hafi komist þannig að orði að Ísland væri á miðju hafsvæði sem hefði „geópólitíska stöðu einskonar orrustuvallar“.

Þýsk stjórnvöld stefna að því að verja milljörðum evra til að fjárfesta í eftirlitsflugvélum og kafbátum til að sinna verkefnum í GIUK-hliðinu.

Þýska sambandsþingið samþykkti vorið 2021 að keyptar yrðu fyrir 1,1 milljarð evra 5 Boeing P-8A Poseidon þotur til eftirlits á hafi úti. Norðmenn hafa nýlega fengið fyrstu vélar af þessari gerð afhentar. Fyrir nokkrum árum töldu norsk yfirvöld að þau gætu afskrifað P-3C Orion kafbátaleitarvélarnar án þess að kaupa nýjar í stað þeirra og sömu sögu var að segja um Þjóðverja. Báðar þjóðirnar festa nú stórfé í nýjum og fullkomnari eftirlits- og leitarvélum vegna stóraukinna hernaðarumsvifa Rússa í norðurhöfum og á Norður-Atlantshafi.

Í mars 2020 sagði Annegret Kramp-Karrenbauer, þáv. varnarmálaráðherra Þýskalands, að GIUK-hliðið væri eitt af þremur hafsvæðum þar sem um „lykil hernaðarlega ögrun“ af hálfu Rússa væri að ræða. Síðan hefur þýski herinn tekið virkan þátt í margvíslegum æfingum í norðri.

Hér á landi eru umræður um þennan þátt öryggismála í lágmarki og ekki einu sinni minnst á þessa þróun í nýjum stjórnarsáttmála. Rannsóknir á borð við þær sem lýst er í þýsku skýrslunni eru ekki stundaðar hér. Þekkingarleysi breytir ekki þessari þróun en það mætti kenna við landlæga nesjamennsku.