28.7.2021 10:30

Þýskar almannavarnir í molum

Flóðin í vesturhluta Þýskalands hefðu síðan sannfært æ fleiri um hve illa Þjóðverjar væru undir það búnir að takast á við hamfarir.

Áfallið sem Þjóðverjar urðu fyrir vegna flóðanna á dögunum er margþætt. Um 200 manns týndu lífi og eignatjónið er gífurlegt. Ekkert kemur í stað mannslífa en mannvirki má endurreisa. Andlega áfallið fyrir íbúa Þýskalands alls varð auk þess mikið. Í ítarlegri grein í vikuritinu Der Spiegel segir að flóðin hafi orðið til að ýta undir efasemdir almennings um að ríkið veitti nauðsynlega öryggisvernd, almannavarnir væru nægilega öflugar.

Haft er eftir breskum sérfræðingi, Hönnuh Cloke, vatnafræðingi sem veitt gefur ráð um flóðavarnir í Evrópu: „Fórnarlömbin eru allt of mörg. Ekki er unnt að stöðva vatnið en þið getið forðað fólki undan því.“

29e3421b-40fe-414b-81a9-9d9503388334_w996_r1.5001878992859827_fpx54_fpy51Der Spiegel birti þessa mynd með flóðagrein sinni.

Í Der Spiegel segir að um langt árabil hafi Þjóðverjar talið sig búa við öryggi. Margir hafi talið að í Þýskalandi ríkti góð skilvirkni. Þjóðverjar væru stoltir af því að hjá þeim gengi flest betur en annars staðar, þeir byggju við meira öryggi og treysta mætti að hlutir væru í lagi. Þegar brú hrundi á Ítalíu hefðu Þjóðverjar oft brugðist við með samúðarfullum hroka í þeirri trú að ekkert slíkt gæti gerst hjá þeim.

Raunveruleikinn sé þó annar og tilfinningarnar hafi breyst ekki aðeins vegna flóðanna á dögunum heldur vegna þess sem gerst hafi undanfarna 18 mánuði. Þótt Þjóðverjar hafi verið næsta hólpnir fyrstu mánuði COVID-19-faraldursins hafi við fyrstu lokun í samfélaginu birst margvíslegt sem versnað hafi með árunum – í stafrænni þróun, skólastarfi, innan opinbera heilbrigðiskerfisins þar sem enn var skipst á upplýsingum með faxi. Síðan hefðu vandræði orðið vegna bólusetninga. Allt hefði þetta orðið til að auka á efasemdir almennings um að öryggis hans væri gætt á nægilega skipulegan hátt.

Flóðin í vesturhluta Þýskalands hefðu síðan sannfært æ fleiri um hve illa Þjóðverjar væru undir það búnir að takast á við hamfarir.

Um er að ræða vanda við stjórn almannavarna. Í stjórnkerfinu þar eins og á sviði heilbrigðismála eru alls kyns glufur og togstreita milli sambandsstjórnvalda sem ná til landsins alls, stjórna einstakra sambandslanda og sveitarstjórna. Upplýsingamiðlun var í molum og sérfræðiþekking nýttist ekki. Nýjustu tækni er ekki beitt til samskipta við almennings: Í úthverfi Wuppertal, meðalstórri borg, hringdi munkur klukku til að vara fólk við flóðunum!

Hvort Þjóðverjar sameinist um eina samhæfingarmiðstöð í þágu almannavarna kemur í ljós en umræður um lausn af því tagi setja svip á stjórnmálaumræður í landinu fram að sambandsþingkosningunum undir lok september.

Hér er starfrækt samhæfingarmiðstöð almannavarna undir stjórn ríkislögreglustjóra og lagar hún sig, í höndum frábærs starfsfólks, snurðulaust að nýjum stórverkefnum eins og sannast hefur á áþreifanlegan og árangursríkan hátt undanfarna mánuði.

Þjóðverjar ættu að senda stefnumótandi embættismenn hingað til lands til að læra vinnubrögð á sviði almannavarna og hamfarastjórnunar.