Þversagnir í Klausturmáli
Þingfest var mál í héraðsdómi Reykjavíkur, svonefnt vitnaleiðslumál að kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins.
Fjórir forystumenn þingflokks Miðflokksins og tveir forystumenn þingflokks Flokks fólksins komu saman á Klaustur-bar, skammt frá Alþingishúsinu, að kvöldi þriðjudags 20. nóvember. Þeir ræddu hvort og með hvaða „kjörum“ formaður og varaformaður þingflokks Flokks fólksins gætu gengið til liðs við Miðflokkinn.
Bára Halldórsdóttir öryrki var stödd á veitingastaðnum og tók upp samtal þingmannanna. Alls er upptakan sögð 3 klst. og 41 mínúta að lengd. Að kvöldi miðvikudags 28. nóvember birtist útskrift af hluta upptökunnar á vefsíðunum Stundinni og DV.
Þáttaskil urðu formlega í málinu mánudaginn 17. desember:
Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, tilkynnti að forsætisnefnd þingsins hefði hlaupið á sig, hún hefði verið vanhæf til að virkja siðanefnd til að fjalla um mál þingmannanna.
Þingfest var mál í héraðsdómi Reykjavíkur, svonefnt vitnaleiðslumál að kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins. Vilja þeir tilstyrk dómara við gagnaöflun til að þeir geti ákveðið hvort þeir höfði mál gegn Báru Halldórsdóttur. – Var hún ein að verki eða ekki?
Ragnar Aðalsteinsson hrl. er annar lögmanna Báru. Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, ræddi við hann og birtist útprent af fréttinni á ruv.is 13. desember 2018.
Árni Sæberg tók .þessa mynd fyrir Morgunblaðið í réttarsalnum 17. desember, á fremsta bekk: Ragnar Aðalsteinsson, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Bára Halldórsdóttir.
Jóhann Bjarni: En er ekki óheimilt að taka upp samtöl fólks án vitundar þess?
Ragnar Aðalsteinsson: „Jú almennt séð er það. En svo eru alltaf undantekningar frá öllum reglum. Og þarna er um mjög sérstakar aðstæður að ræða. Þetta eru lýðkjörnir þingmenn sem eru að tala saman og þeir tala með þeim hætti að það er spurning hvort almenningur hafi ekki átt rétt á því að vita hvernig þeir töluðu, og um hvað þeir töluðu. Og jafnvel spurning hvort það hafi verið skylt, þeim sem voru á veitingastaðnum og heyrðu þetta, að upplýsa um það til fjölmiðla og láta þá fjölmiðla um að taka málið áfram, eða láta það niður falla.“
Vegna þessarar framvindu má nefna:
- Fundurinn 20. nóvember var „plottfundur“. Lögmaður miðflokksmanna gefur til kynna að Bára eigi aðild að „plotti“ gegn skjólstæðingum sínum.
- Ragnar Aðalsteinsson hefur harðlega gagnrýnt hleranir á símum stjórnmálamanna sem ákveðnar voru af dómurum. Nú telur hann réttlætanlegt ef ekki beinlínis skylt að gestir hleri „lýðkjörna þingmenn“ á veitingastað.