26.9.2025 10:49

Þung gagnrýni á RÚV

Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur nálgast fjölmiðlun úr annarri átt en fellur að fréttum íslenskra fjölmiðla sem hafa fréttastofu ríkisútvarpsins og ráðandi öfl í Blaðamannafélagi Íslands sem viðmið.

Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur nálgast fjölmiðlun úr annarri átt en fellur að fréttum íslenskra fjölmiðla sem hafa fréttastofu ríkisútvarpsins og ráðandi öfl í Blaðamannafélagi Íslands sem viðmið.

Grein Írisar í Morgunblaðinu í dag (26. september) hefur þetta leiðarstef: „RÚV telur það mun meiri harmleik að Jimmy Kimmel skuli hafa misst vinnuna en að Charlie Kirk hafi verið tekinn af lífi fyrir framan fjölskyldu sína.“

Jimmy Kimmel er vinstrisinnaður þáttarstjórnandi á bandarísku ABC-sjónvarpsstöðinni. Charlie Kirk stofnaði með öðrum íhaldssama hreyfingu, Turning Point USA. Launmorðingi skaut Kirk þegar hann flutti ræðu á útifundi sem hann boðaði við háskóla í Utah-ríki 10. september 2025.

Í grein sinni segir Íris:

„Þegar Jimmy Kimmel fyrst sagði í beinni útsendingu á útvarpsbylgjum almennings að morðingi Charlies Kirks hefði verið „einn af þeim [MAGA]“ vissi hann að það var lygi. Móðir morðingjans hafði staðfest vinstripólitískar skoðanir hans og næsta dag staðfesti hún að hann væri á kafi í pró-trans-hugmyndafræði. FBI, lögreglan og ríkisstjórinn í Utah höfðu staðfest að morðinginn væri „undir áhrifum vinstri hugmyndafræði“.“

MAGA er skammstöfun fyrir Make America Great Again sem kalla má hulduher Donalds Trump. Hann er eitur í beinum fjölmiðlamanna eins og Kimmels sem var settur til hliðar tímabundið af stjórnendum ABC vegna orðanna um Kirk en fékk síðan þáttinn sinn aftur.

Í grein sinni bendir Íris á að Kimmel hafi lögum samkvæmt ekki rétt til ótakmarkaðs málfrelsis á ABC. Útsendingarrásir stöðvarinnar séu almannaeign og útsendingum fylgi lögbundnar kvaðir, annað gildi um einkastöðvar eins og CNN og Fox.

Screenshot-2025-09-26-at-10.47.55Morgunblaðið 26. september 2025.

Áhrif þess sem gerist í bandarískum stjórnmálum eða fjölmiðlaheimi eru mjög mikil hér á landi. Fréttastofa RÚV fylgist náið með öllu sem leiðir til ávirðinga í garð Donalds Trump. Í morgunfréttum klukkan 08.00 voru þrjú efnisatriði: (1) að hringvegurinn hefði farið í sundur við Jökulsá í Lóni fyrir austan Höfn í Hornafirði; (2) alríkissaksóknari í Virginíuríki hefði gefið út ákæru á hendur James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, og (3) um brúarsmíði í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum.

Valið á þessari einu erlendu frétt vakti athygli vegna efnistaka og þess að síðdegis í gær lýsti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, að árás hefði verið gerð á land sitt. Lá ekki beinna við að skýra hlustendum frá efni þess máls heldur en ákæru gegn Comey? Í fréttinni af Comey gafst tækifæri til að gagnrýna stjórnarhætti og skoðanir Trumps. Það væri kannski ekki allt með felldu við saksóknina gegn Comey sem er sagður að hafa logið að þingnefnd.

Grein sinni um Kimmel og Kirk lýkur Íris Erlingsdóttir á þessum þungu orðum:

„Ríkisfjölmiðillinn, sem landsmenn verða nauðugir viljugir að gefa sex milljarða króna á ári, er vanur því að geta dreift lygum og pólitískum áróðri yfir þjóðina og að geta brotið lög um stofnunina dag hvern án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir áróðursmeistarana í Efstaleitinu.“