21.3.2025 9:56

Þriggja mánaða vandræðastjórn

Flokkur fólksins er einkaflokkur þar sem frambjóðendur eru handvaldir af Ingu Sæland. Að vera í því einvalaliði verður sífellt verra og að treysta á það við stjórn landsins gerir Kristrúnu forsætisráðherra óhæfa þótt klórað sé í bakkann.      

Nú 21. mars eru réttir þrír mánuðir liðnir frá því að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar myndaði ríkisstjórn sína með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins. Á þessum þremur mánuðum sést hve mikið dómgreindarleysi réð ferð þegar Flokkur fólksins undir forystu Ingu Sæland var leiddur til valda.

Í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 fimmtudaginn 20. mars virtist Kristrún ráðalaus þegar hún svaraði spurningum fréttamanna um hvernig ráðuneyti hennar hefði haldið á málum eftir að tilmæli bárust um að forsætisráðherra léti sig mál varða sem snerti Ásthildi Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra úr Flokki fólksins.

Screenshot-2025-03-21-at-09.49.36Þetta er fyrirsögn á frétt ruv.is að kvöldi 20. mars eftir að stjórnmálafræðimgurinn Eva Heiða Önnudóttir lýsti skoðun sinni í 22-fréttum. Hún sagði stjórnina að vísu á gráu svæði og annað kynni að koma í ljós. Það er alls enginn friður um stjórnina.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins að kvöldi 20. mars sagði að 9. mars hefði forsætisráðherra borist tölvubréf með beiðni um 5 mínútna fund án þess að fundarefnið væri tilgreint. Tveimur dögum síðar, 11. mars, hefði sami aðili sent annað tölvubréf og ítrekað ósk sína um fund. Þar var einnig tekið fram að erindið varðaði mennta- og barnamálaráðherra og að það væri í góðu lagi að mennta- og barnamálaráðherra sæti fundinn. Að öðru leyti komu engar frekari upplýsingar fram um tilefni fundarbeiðninnar. Þá segir forsætisráðuneytið að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi spurt aðstoðarmann mennta- og barnamálaráðherra hvort hann þekkti til sendanda eða vissi um hvað málið snerist. Svo var ekki. Önnur samskipti hefðu ekki átt sér stað um málið.

Kristrún Frostadóttir studdist við þessa frásögn ráðuneytis síns í samtölum við blaðamenn. Ráðuneyti sitt hefði ekki brotið neinn trúnað í málinu.

Ásthildur Lóa sendi fjölmiðlum langa lýsingu á sinni hlið málsins að morgni föstudagsins 21. mars þar sem hún lýsir nákvæmlega samskiptum sínum við 15 ára barnsföður sinn þegar hún var 22 ára og leiðbeindi honum í trúarhópi. Þau eignuðust son. Í greinargerðinni segir:

„Þriðjudaginn 11. mars sýnir aðstoðarmaður forsætisráðherra mér textaskilaboð þar sem ég var rétt að hefja þátttöku í umræðum á Alþingi. Skilaboðin voru stutt og á þá leið að kona sem var nafngreind og ég kannaðist alls ekki við vildi fund með forsætisráðherra um mig.“

Þessi lýsing stangast á við að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi aðeins haft samband við aðstoðarmann Ásthildar Lóu. Hann ræddi við hana beint og hefur varla gert það án vitundar forsætisráðherra. Sé rétt að höfundur skilaboðanna hafi óskað trúnaðar um nafn sitt rauf aðstoðarmaðurinn trúnaðinn með þessu.

Ásthildur Lóa hefur varla hag af því að skýra rangt frá þessum málavöxtum. Framganga forsætisráðherra og ráðuneytis hennar fær hins vegar nýjan svip.

Sama dag og þetta nýjasta vandræðamál vegna Flokks fólksins springur í andlit forsætisráðherra er greint frá því að fjármálaráðherra Viðreisnar hafi greitt Ingu Sæland tugi milljóna króna af því að hún hélt landsfund til að breyta félagi sínu í stjórnmálaflokk.

Flokkur fólksins er einkaflokkur þar sem frambjóðendur eru handvaldir af Ingu Sæland. Að vera í því einvalaliði verður sífellt verra og að treysta á það við stjórn landsins gerir Kristrúnu forsætisráðherra óhæfa þótt klórað sé í bakkann.