8.5.2023 9:52

Þriðja tilraun Dags B.

Hvorki Dagur B. né verðandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, hafa sagt neitt eða gert sem sýnir vilja til að horfast í augu við fjárhagsvanda borgarinnar.

Skilvirkni og hagkvæmni er krafan sem gerð er alls staðar til reksturs nú á dögum. Besta leiðin til að ná endum saman er að halda kostnaði í skefjum og fá sem mestu áorkað fyrir þá fjármuni sem eru fyrir hendi. Þetta eru einföld og skýr sannindi.

Augljóst er af tölum sem birst hafa undanfarið að rekstur Reykjavíkurborgar lýtur mjög veikri fjárhagslegri stjórn. Það sem verra er að í æðstu stjórn borgarinnar ríkir afneitun þegar gagnrýnt er hvernig að málum er staðið.

Þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sat uppi með það fyrir nokkrum vikum að ekki þótti ráðlegt að bjóða til sölu skuldabréf til að fjármagna borgina vegna þess hve lítils hún er metin á skuldabréfamarkaði lét hans eins og það skipti í raun engu. Borgin ætti aðra kosti sem væru jafnvel betri.

Þrátt fyrir að borgarstjóri hafi látið eins og hann væri ekkert háður skuldabréfamarkaðnum er nú boðað að miðvikudaginn 10. maí verði gerð þriðja tilraun til að sækja borginni fé á skuldabréfamarkaðnum. Áhugi á markaðnum ræðst af því hvaða vaxtakjör verða á bréfunum.

Reykjavíkurborg skortir 14 milljarða króna til að markmið um 21 milljarðs fjármögnun á fyrri hluta ársins gangi eftir. Sumir sérfræðingar telja að fjárfestar kunni að hafa meiri áhuga á bréfunum nú en áður eftir að ársreikningur borgarinnar var kynntur.

1410579Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir ársreikning 2022. Á myndinni eru auk hans Alexandra Briem pírati og Þórdís Lóa Þóirhallsdóttir í Viðreisn en þær hafa stutt Dag B. og fármálasfjórn hans frá 2018.

Sá reikningur var að vísu ekki aðlaðandi fyrir neinn. Þegar hann var birtur undir lok apríl kom í ljós að Reykjavíkurborg tapaði 15,6 milljörðum króna af rekstri A-hluta starfseminnar í fyrra. Áætlanir borgarinnar höfðu gert ráð fyrir 2,8 milljarða króna tapi og niðurstaðan er því hátt í sexfalt verri en áætlað var.

Í fyrri viku bárust svo fréttir um að villa hefði verið í þeim gögnum sem voru til umræðu á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 2. maí. Við endurskoðun hefðu verðbætur í sjóðstreymi reynst oftaldar um 2.492 m. kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Leiðréttingin hefði áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi.

Þessar fréttir af fjárhag borgarinnar sýna ekki betri stöðu hennar miðað við tvær fyrri tilraunir á árinu til að selja skuldabréf. Til að auka áhuga fjárfesta á að kaupa skuldabréf af borginni til að fjármagna starfsemi hennar og fylla 14 milljarða gatið sem enn er opið miðað við áætlanir um fjármögnun fyrri hluta ársins hefði boðskapurinn um fjármál borgarinnar örugglega þurft að vera annar en þessi. Á markaði getur þó allt gerst og vafalaust finnast einhverjir fjársterkir sem vilja áfram veðja á fjármálasnilld Dags B.

Hann sá það sér helst til bjargar í þröngri stöðu sinni að skella skuldinni á aðra, að þessu sinni voru það útgjöld í þágu fatlaðra – ríkið hefði ekki staðið við sinn hlut!

Framsóknarmenn búa sig nú undir að taka við borgarstjórakeðjunni af Degi B. Hún er þegar orðin þeim dýrkeypt en því miður bendir allt til að vont haldi áfram að versna í ráðhúsinu.

Hvorki Dagur B. né verðandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, hafa sagt neitt eða gert sem sýnir vilja til að horfast í augu við fjárhagsvanda borgarinnar.