Þriðja Reykjanesgos á 28 mánuðum
Prófessor Magnús Tumi Guðmundsson lýsti fyrsta gosinu við upphaf þess sem „ræfli“ og þetta gos sagði hann vera „töluvert“ við fyrstu sýn.
Þriðja eldgosið á Reykjanesi síðan í mars 2021 hófst við Litla Hrút síðdegis mánudaginn 10. júlí 2023. Fyrsta gosið var í sex mánuði frá 19. mars 2021 við Fagradalsfjall, annað gosið var í 18 daga frá 3. ágúst 2022 í Meradölum.
Svona leit gosið út í beinni útsendingu RÚV klukkan 10.00 að morgni þriðjudags 11. júlí.
Prófessor Magnús Tumi Guðmundsson lýsti fyrsta gosinu við upphaf þess sem „ræfli“ og þetta gos sagði hann vera „töluvert“ við fyrstu sýn.
Að kvöldi 10. júlí var höfuðáhersla fræðinga og almannavarna á að vara fólk við að fara að gosinu vegna hættu á eitruðum gufum sem jörðin sendir frá sér. Nóttin leið án óhappa eða slysa.
Þegar fréttir voru fyrst fluttar af gosinu núna á rás 2 ríkisútvarpsins hvatti þáttarstjórnandi hlustendur til að setja á sig gönguskóna en dró hvatninguna snarlega til baka.
Sjónvarpsfréttakona ríkisins sagði „stórkostlegt“ að vera í námunda við gosið. Frásagnir fréttamanna sem stangast á við viðvaranir um hættur valda ringulreið og skapa vandræði við lokunarpósta sem orðabókin skýrir á þennan veg: vegartálmi sem lokar fyrir umferð um veg, einkum vegna ófærðar.
Félagið Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands (ENSu) hefur verið á Facebook síðan 2018. Markmið félagsins er að stuðla að fræðslu fyrir almenning á jarðfræði og náttúruvá á Suðurlandi. Á síðu hópsins má finna fróðleik um eldfjöll og eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll og annað á Suðurlandi. Þetta sagði um gosið við Litla Hrút að morgni 11. júlí:
„Nú eru um 15 tímar frá því að gosið við Litla Hrút hófst og hafa orðið nokkrar breytingar á gosstöðvunum. Helst er það að gossprungan hefur dregist verulega saman og slokknað í gosopum á báðum endum hennar. Nú gýs einungis um miðbik sprungunnar og er það í takt við hegðun eldgossins í fyrra. Samhliða þessu hefur gosórói fallið nokkuð og það er sýnilega mun minni gasmengun heldur en í gærkvöldi. Framleiðni hefur fallið og virðist hraunflæði vera um 10 m3/sek samkvæmt jarðvísindafólki Háskóla Íslands.
Allt er þetta mjög hefðbundin hegðun fyrir upphafsfasa eldgosa. Sprungugos sem þessi eru gjarnan kröftugust í byrjun, enda safnast gas fyrir ofarlega í kvikuinnskotinu sem brýtur sér leið upp á yfirborð. Þegar gosið hefst byrjar þrýstingurinn í kvikuganginum að falla og þar með krafturinn í gosinu. Nú er bara spurning hversu lengi gosrásin helst opin áður en gosinu lýkur.“
Óvissan heldur áfram þótt gos sé hafið. Jafnan þegar jörðin hreyfir sig á einn hátt eða annan erum við minnt á að maðurinn hefur í raun ekkert yfir jörðinni að ráða. Hann verður að laga sig að duttlungum hennar og gera sitt besta til að milda áhrifin ef jafnvægi raskast. Þetta á jafnt við um jarðskjálfta, eldgos og loftslag.